Umræðan

Út­gerðir aflands­skipa sem enga skatta hafa greitt vilja lækkun inn­viða­gjalda

Kristófer Oliversson skrifar

Fulltrúar hagsmuna hótelskipaútgerða og tengdra aðila hafa stigið fram opinberlega undanfarið og gagnrýnt innheimtu gistinátta- og innviðagjalda á hótelskip sem sigla með ferðamenn meðfram Íslandsströndum. Ef marka má frétt í Bæjarins besta í júní hefur þeim tekist að ná eyrum stjórnvalda því atvinnumálaráðherra segir þar að þörf sé á að endurskoða innviðagjaldið í tengslum við frágang fjármálaáætlunar á yfirstandandi þingi.

Af þessu tilefni er rétt að minna á að skemmtiferðaskipin eru í raun fljótandi aflandshótel sem hafa fram á 2024 ekki greitt neina skatta á Íslandi og því notið mikils forskots í samkeppni við hótel og gististaði í landi.

Um áramót var í samræmi við nýsamþykkta ferðamálastefnu Alþingis lagt sérstakt innviðagjald, 2500 kr. á farþega, á stóru skipin. Þá hafa fulltrúar aflandsskipanna sérstaklega vísað til skatta á svokölluð leiðangursskip, sem dvelja við Ísland yfir sumarið og sigla á milli hafna hring eftir hring í kringum landið. Í þeim efnum er mikilvægt að hafa í huga að þau skip greiða aðeins gistináttaskatt, ekki innviðagjald, og að sá skattur var lækkaður um síðustu áramót úr 1000 kr. í 800 kr. á káetu. Á sama tíma var gistináttaskattur á hótel hækkaður úr 600 kr. í 800 kr. á herbergi.

Skemmtiferðaskipin eru í raun fljótandi aflandshótel sem hafa fram á 2024 ekki greitt neina skatta á Íslandi og því notið mikils forskots í samkeppni við hótel og gististaði í landi.

Í dag greiða því leiðangursskip sama gistináttaskatt á hvert herbergi og hótelin og er það eini skatturinn sem þau skip greiða til íslenska ríkisins á meðan hótelin greiða öll opinber gjöld og skatta líkt og önnur fyrirtæki á Íslandi. Ef horft er til allra skatta og gjalda greiða hótel á bilinu 10 - 20 þúsund kr. á hvert herbergi í skatta og skyldur fyrir hverja nótt.

Rekstur hótela og veitingahúsa hefur verið erfiður undanfarin ár. Í ljósi þess og ofangreinds mætti því ætla að ýmis brýnni verkefni á sviði ferðaþjónustu biði atvinnumálaráðherra en að lækka gjöld á aflandshótel sem eru lítil í samanburði við innlenda keppinauta þeirra.

Höfundur er formaður Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu.


Tengdar fréttir

Ís­land þarf ekki að gefa af­slátt

Álagsstýring er mikilvægt stjórntæki sem stuðlað getur að sjálfbærni í ferðaþjónustu og um leið aukið á þau verðmæti sem greinin getur skapað. Náttúra Íslands er aðdráttaraflið og því skiptir miklu máli að upplifunin af henni verði eftirminnileg og einstök. Til að íslensk ferðaþjónusta geti verið sú hágæðavara sem allir í orði kveðnu telja eftirsóknarvert þarf stýringu sem felur í sér sanngjarna og hóflega gjaldtöku og setningu þolmarka.




Umræðan

Sjá meira


×