Þórir Hergeirsson stýrði norska liðinu í síðasta sinn þegar hann rúllaði yfir Dani, 31-24, í úrslitaleiknum á EM í gær. Noregur leiddi með einu marki í hálfleik, 13-12, en vann svo seinni hálfleikinn, 18-12.
Danska pressan var ekki sátt með frammistöðu danska liðsins í úrslitaleiknum í Vín í gær. „Vandræðalegt, Danmörk!“ stóð til að mynda í B.T.
„Eins og við höfum séð nokkrum sinnum í þessari keppni kom hrunið skömmu eftir hlé. Danir voru einungis aukaleikarar síðasta hálftímann. Hugrekki og gæði skorti,“ sagði einnig í umfjöllun B.T.
„Danmörk tapaði úrslitaleiknum eftir niðurlægingu,“ var skrifað í Ekstra Bladet.
Danir leyfðu sér að dreyma um sinn fyrsta Evrópumeistaratitil í tuttugu ár en Norðmenn voru á öðru máli og unnu EM í sjötta sinn undir stjórn Þóris. Alls vann norska liðið til ellefu gullverðlauna á tuttugu stórmótum á stjórnartíð hans.