Klinkið

Hrafn­hildur gengur til liðs við ADVEL lög­menn frá ESA

Ritstjórn Innherja skrifar
Hrafnhildur Kristinsdóttir hafði starfað undanfarin sjö ár hjá Eftirlitsstofnun EFTA.
Hrafnhildur Kristinsdóttir hafði starfað undanfarin sjö ár hjá Eftirlitsstofnun EFTA.

Hrafnhildur Kristinsdóttir, sem hefur síðustu ár starfað sem lögfræðingur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), hefur gengið til liðs við ADVEL lögmenn. Þar mun hún starfa sem ráðgjafi samhliða kennslu við Háskólann í Reykjavík.

Hrafnhildur hefur undanfarin sjö ár verið búsett í Brussel þar sem hún starfaði á innra markaðssviði ESA. Þar bar hún ábyrgð á þeim málaflokkum er vörðuðu réttindi launþega, vinnurétt í víðara samhengi og frjálsa för fólks, en öðlaðist jafnframt mikla sérþekkingu á fjórfrelsisákvæðum innri markaðarins og meginreglum Evrópu-og EES-réttarmeðal annars sem hluti af málflutningsteymi ESA fyrir EFTA dómstólnum.

Hrafnhildur, sem er með LLM-gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi, starfaði sem fulltrúi hjá ADVEL á árunum 2014 til 2017, en var þar áður var hún fulltrúi hjá LOGOS lögmannsþjónustu í fimm ár.

„Ég er mjög ánægð að vera komin aftur til ADVEL og hlakka til að leggja mitt af mörkum til að styðja við áframhaldandi vöxt félagsins,“ er haft eftir Hrafnhildi í tilkynningu.

Bjarni Þór Bjarnason, stjórnarformaður ADVEL, segir ánægjulegt að fá Hrafnhildi aftur til lögmannsstofunnar. „Hún hefur langa reynslu af lögmannsstörfum og er gríðarlega öflug viðbót við hópinn. Víðtæk sérþekking hennar, ekki síst á sviði Evrópuréttar og vinnuréttar, styrkir þjónustuframboð ADVEL enn frekar og mun nýtast vel við að leysa úr þeim fjölbreyttu áskorunum sem viðskiptavinir okkar standa frammi fyrir, hvort sem er hér á landi eða erlendis“.

Hjá ADVEL starfa í dag 14 manns en lögmannstofan er til húsa á Hafnartorgi. Á árinu 2023 námu tekjur félagsins, sem er í eigu sex lögmanna, tæplega 390 milljónum og hagnaðurinn var um 54 milljónir eftir skatt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×