Í fréttatilkynningu þess efnis frá HS Orku segir að fjármögnunin nái til yfirstandandi stækkunar og endurbóta orkuversins í Svartsengi og er mikilvægt skref í átt að áformum um frekari vöxt félagsins í jarðvarma og vatnsafli, sem byggi á orkukostum í nýtingarflokki rammaáætlunar.

„Við erum afar sátt við það að hafa lokið svo umfangsmikilli endurfjármögnun á sama tíma og við höfum þurft að mæta fjölbreyttum áskorunum í rekstri vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaganum síðustu misseri. Þetta undirstrikar styrk félagsins og trú jafnt innlendra sem erlendra lánveitenda á vaxtaráform okkar til framtíðar,“ er haft eftir Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku.
Með þeim fyrstu til að leita á nýjan markað
Það sé jafnframt ánægjulegt að í hópi lánveitenda séu nýir aðilar en félagið hafi gefið út skuldabréf á USPP (US Private Placement) markaðnum. HS Orka sé eitt fyrsta einkarekna félagið hér á landi til að gefa út á þeim markaði.
Endurfjármögnunin falli undir grænan fjármögnunarramma félagsins og styðji þannig við langtímamarkmið félagsins í rekstri.
Stækka orkuverið þrátt fyrir jarðhræringar
„Við höldum áfram stækkun og endurbótum orkuversins í Svartsengi og stefnum að því að ljúka framkvæmdinni í árslok 2025 en hún mun, ásamt öðrum verkefnum sem eru framundan hjá okkur, leggja lóð á vogarskálar orkuskipta á Íslandi og mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku hér á landi.“
Ráðgjafar HS Orku við endurfjármögnunina hafi verið RBC Capital Markets, sem hafi veitt sérfræðiráðgjöf í fjármálum og sjálfbærni, en lögfræðiráðgjöf hafi Latham & Watkins veitt ásamt Juris. Lánveitendur hafi notið ráðgjafar frá White & Case.