Viðskipti innlent

Brandenburg hreppti Ljónið í Cannes

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bragi Valdimar og Arnar Halldórsson tóku við verðlaununum.
Bragi Valdimar og Arnar Halldórsson tóku við verðlaununum. Brandenburg

Auglýsingastofan Brandenburg vann í kvöld bronsverðlaun á Cannes Lions verðlaunahátíðinni fyrir endurmörkunarvinnu á orkudrykknum Egils Orku. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk auglýsingastofa hlýtur Cannes Lions verðlaunin án þess að hafa verið í samstarfi við erlendar stofur.

Þetta kemur fram í tilknningu frá Brandenburg. Þar segir að endurmörkunin hafi verið leidd af Arnari Halldórssyni, sköpunarstjóra Brandenburgar, og að lögð hafi verið áhersla á að miðla verkum eftir unga listamenn og skapa þannig vettvang fyrir listtjáningu í slagtogi við vörumerki sem hreyfist á hraða menningar.

Áður hefur Björk Guðmundsdóttir hlotið slík verðlaun fyrir sýndarveruleikamyndbandið við lagið Notget en verkefnin Inspired by Iceland og Icelandverse hafa einnig hreppt verðlaun í samstarfi við erlendar auglýsingarstofur.

„Að vinna sitt fyrsta ljón gleymist seint, sér í lagi þegar sigurinn er sögulegur. Í kvöld heiðrum við heilt land fyrir að vinna sitt fyrsta ljón í 71 árs sögu keppninar,“ er haft eftir Simon Cook, forstjóra Cannes Lions.

Verðlaunin eru veitt fyrir skapandi nálgun á markaðssetningu og auglýsingar. Fjöldi þátttakenda frá hátt í hundrað löndum koma saman á frönsku rívíerunni árlega og hylla bestu skapandi verk ársins. Hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar og var haldin í 71. skipti í ár.

„Á Íslandi blómstrar skapandi hugsun og það eru mikil tækifæri fólgin í að beisla þennan mikla sköpunarkraft og koma honum á framfæri á stóra sviðinu,“ er haft eftir Arnari Halldórssyni, sköpunarstjóra hjá Brandenburg.,


Fleiri fréttir

Sjá meira


×