Skoðun

Ó­lög­leg á­fengis­sala

Ari Jónsson skrifar

Fjármálaráðherra hefur nýverið annars vegar sent erindi til lögreglu vegna ólöglegrar netsölu, og hins vegar birt álit lögmanna um regluverk vegna áfengissölu hérlendis. Álit þessara lögmanna sýnir þrennt með skýrum hætti.

Í fyrsta lagi er íslenska ríkinu frjálst að takmarka áfengissölu vegna lýðheilsu samkvæmt EES-samningum. Í öðru lagi er einkaleyfi ÁTVR til smásölu hérlendis skýrt. Í þriðja lagi þá þarf flutningur á áfengi milli ríkja að vera raunverulegur innflutningur, til þess að falla undir frjálsa vöruflutninga skv. EES. Hæstiréttur Svíþjóðar og Hæstiréttur Danmerkur hefur túlkað hvað telst raunverulegur vöruflutningur og þar með netsala áfengis milli ríkja, og Hæstiréttur Íslands myndi túlka það eins að mati þessara lögmanna.

Fjölmargar smásölur hafa opnað hérlendis fyrir áfengi - í andstöðu við lögbundið einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis. Hagkaup hefur síðast fyrirtækja boðað sölu áfengis í Skeifunni með notkun QR kóða, snjalltækja og afhendingar innan 15 mínútna. Allir sjá að þessi leikþáttur er lélegur, enda ekki um að ræða innflutning og netverslun yfir landmæri með áfengi sem er selt og afhent með framangreindum hætti. Smásala Sante, Smáríkisins, Hagkaups og fleiri fyrirtækja er því ólögleg eins álit lögmanna sýnir.

Löghlýðnir borgarar, fyrirtæki, og áhugamenn um íslenskt atvinnulíf hljóta því að spyrja sig nokkurra spurninga:

Nýtur ólögleg smásala áfengis, verndar samkvæmt lögum eða „lögverndar“ eins og það er kallað? Svarið er nei, ekki frekar en sala á þýfi eða ólögmætum vímuefnum. Af því leiðir að slík ólögleg starfsemi nýtur ekki verndar réttarríkisins, hvorki dómstóla né lögreglu.

Ef lager og birgðir ólöglegrar áfengissölu Sante, Hagkaups eða annarra verður fyrir skemmdarverkum eða er stolið, væri þá hægt að ákæra viðkomandi geranda fyrir eignaspjöll eða þjófnað? Svarið er nei.

Ef fasteign og húsnæði sem hýsir ólöglega atvinnustarfsemi fyrir áfengissölu eins og hjá ofangreindum fyrirtækjum, verður fyrir eldsvoða eða öðru tjóni sem rekja má til slíkrar starfsemi, fellur viðkomandi fasteign og atvinnurekstur þá undir tryggingavernd vátryggingar? Svarið er nei. Þvert á móti gæti sá sem ábyrgur er fyrir ólöglegri atvinnustarfsemi borið ábyrgð á slíku tjóni gagnvart fasteignaeiganda og öðrum gagnaðilum eða kröfuhöfum.

Ef starfsfólk verður fyrir óhappi í starfi við það að sinna starfsskipunum atvinnurekanda í ólöglegri atvinnustarfsemi eins og smásölu áfengis, nýtur viðkomandi starfsmaður verndar heilbrigðis- eða starfstryggingar sinnar eða atvinnurekanda? Svarið er nei.

Samstarfaðilar, viðskiptavinir og starfsmenn þessara fyrirtækja hafi framangreint í huga.

Höfundur er skattgreiðandi
Skoðun

Sjá meira


×