Haraldur greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Hann segir verkefnið hafa kennt honum mikið um hann sjálfan og segist hann mögulega munu segja meira frá ferlinu síðar. Hann segir að stundum sé uppgjöf besta leiðin að frelsinu og segist upplifa gríðarlegan létti.
Rúmt ár er síðan Haraldur opnaði veitingastaðinn. Staðurinn bar nafn móður hans Önnu Jónu Jónsdóttur, sem lést fyrir meira en 35 árum síðan þegar hann var einungis 11 ára gamall. Haraldur keypti jarðhæðina á Tryggvagötu tveimur árum fyrr, árið 2021.
Haraldur segir í samtali við mbl.is um málið að erfitt rekstrarumhverfi hafi að einhverju leyti spilað inn í ákvörðun hans um að loka staðnum. Hann hafi vonast til þess lengi að næsti mánuður yrði betri en sá fyrri en á endanum hafi tekjumódelið ekki gengið upp.