Körfubolti

Stjarnan stað­festir komu Baldurs: „Ekki slæmt bú að fá að taka við“

Sindri Sverrisson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson mundar pennann með samning frá Stjörnunni á borðinu.
Baldur Þór Ragnarsson mundar pennann með samning frá Stjörnunni á borðinu. Stjarnan

Eins og Vísir greindi frá í gær hefur körfuknattleiksdeild Stjörnunnar ráðið Baldur Þór Ragnarsson sem þjálfara karlaliðs félagsins. Hann kveðst afar spenntur fyrir starfinu.

Stjarnan staðfesti komu Baldurs í dag, eftir að hafa einnig staðfest komu Ólafs Jónasar Sigurðssonar sem tekur við kvennaliði félagsins.

Líkt og Ólafur þá tekur Baldur við af Arnari Guðjónssyni sem hefur stýrt bæði karla- og kvennaliði Stjörnunnar. Kvennaliðið hefur leik í úrslitakeppninni á þriðjudaginn en karlaliðið endaði í 9. sæti Subway-deildarinnar og missir því af úrslitakeppninni.

Baldur hefur undanfarin tvö ár starfað í Þýskalandi og þjálfað hjá Ratiopharm Ulm, en var áður þjálfari Tindastóls og Þórs Þorlákshafnar hér á landi.

„Gott að finna að Stjörnusamfélagið allt hafði mikinn áhuga“

„Eftir að Stjarnan hafði samband þá gekk þetta hratt fyrir sig, og það var gott að finna að Stjörnusamfélagið allt hafði mikinn áhuga á að fá mig til starfa,“ segir Baldur í tilkynningu frá Stjörnunni.

„Ég er mjög spenntur á að takast á við þetta verkefni, Stjarnan er stór klúbbur og spennandi starf fyrir hvern þjálfara að fá að takast á við. Stjarnan er með mikið og gott starf í yngri flokkum og vill vera með liði í efstu sætum í meistaraflokki,“ segir Baldur og bætir við:

„Arnar Guðjónsson hefur unnið gott starf í Garðabænum og ekki slæmt bú að fá að taka við og keyra áfram veginn.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×