Viðskipti innlent

Lára ráðin til stýra al­manna­tengsla­deild Pipar/TBWA

Atli Ísleifsson skrifar
Lára lauk nýverið meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands.
Lára lauk nýverið meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Aðsend

Pipar\TBWA auglýsingastofa hefur ráðið Láru Zulima Ómarsdóttur í starf leiðtoga almannatengsla (Head of Communication & Public Relations) og mun hún stýra almannatengsladeild stofunnar.

Í tilkynningu kemur fram að Lára hafi víðtæka reynslu af fjölmiðlum og almannatengslastörfum, sem samskiptastjóri, fréttamaður, vefritstjóri, framleiðandi og dagskrárgerðarkona bæði í útvarpi og sjónvarpi og búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu á starfi fjölmiðla. 

„Hún hefur meðal annars vakið athygli fyrir umfjöllun um félagsleg málefni og náttúru Íslands og stundað rannsóknarblaðamennsku meðal annars í þáttum á borð við Kveik á RÚV og Kompás á Stöð 2 og hlotið verðlaun fyrir störf sín. Undanfarið ár hefur hún unnið að heimildamynd og við gerð sjónvarpsþátta sem sýndir verða á RÚV. 

Lára lauk meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands 2024 og B.ed. gráðu í íslensku og stærðfræði 2004. Áður starfaði hún meðal annars sem innkaupastjóri og sem framkvæmdastjóri knattspyrnufélags. Lára hefur gefið út eina bók, Hagsýni og hamingja. 

Með ráðningunni styrkir Pipar\TBWA enn frekar þá þjónustu sem stofan býður upp á á sviði almannatengsla. Pipar\TBWA vill veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu jafnt á sviði markaðsmála sem og öðrum snertiflötum við fyrirtæki og þar skipta almannatengsl sífellt meira máli. Almannatengsl sem eru faglega unnin byggja á stefnumótun og skipulagningu þar sem í forgrunni þurfa að vera skýr skilaboð um vörumerkið og allt kynningarefni þarf að haldast í hendur og segja sömu sögu,“ segir í tilkynningunni. 

Pipar\TBWA er hluti af TBWA-auglýsingastofukeðjunni sem telur yfir þrjú hundruð auglýsingastofur víðs vegar um heim. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×