Samstarf

Spennan magnast í Meistara­deild Líf­lands í hesta­í­þróttum!

Lífland
Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðstöðum.
Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðstöðum.

Mótaröð Meistaradeildar Líflands er hálfnuð nú þegar fjórar keppnir er búnar og spennan magnast með hverju mótinu.

Nú síðast var keppt í Gæðingalist í HorseDay Höllinni á Ingólfshvoli undir fullu húsi áhorfenda. Gæðingalist er tiltölulega ný grein sem hefur þróast mikið á undanförnum árum og nýlega verið viðurkennd sem keppnisgrein undir nafninu Gæðingalist, áður Gæðingafimi.

Fyrst var keppt í Gæðingafimi á upphafsári Meistaradeildarinnar árið 2001 og hún var hönnuð á sínum tíma af stofnanda Meistaradeildarinnar, Erni Karlssyni. Það má segja að þessi grein sé heldur frábrugðin venjulegum hringvallagreinum. Keppendur þurfa að sýna vel þjálfaðan gæðing á listrænan hátt þar sem hann fléttar saman gangtegundum og æfingum og sýnir í einni heild, jafnvægi, þjálni, kraft og fimi hestsins. Það hefur verið gaman að fylgjast greininni þróast ásamt því að sjá knapana bæta sig ár frá ári og hefur samkeppnin sjaldan verið eins mikil og nú.

Rjóminn af bæði hestum og knöpum mættu vel undirbúnir þetta kvöld og hver sýningin á fætur annarri var stórglæsileg. Fimm lið af sjö nýttu sér það að mæta með svokallaðan villikött eða „wildcard“ - en einu sinni yfir tímabilið gefst liðum tækifæri á því að sækja sér liðsauka út fyrir liðið. Það að svona mörg lið nýttu sér þetta í þessa grein segir okkur að metnaðurinn gagnvart greininni er orðinn meiri en einnig hversu krefjandi hún er. Það gerði kvöldið vissulega skemmtilegra að fá alla þessa glæsilegu knapa til leiks enda var ekki ljóst hverjir villikettirnir væru fyrr en þeir riðu í braut.

Ragnhildur Haraldsdóttir og Úlfur frá Mosfellsbæ.

Ragnhildur Haraldsdóttir og Úlfur frá Mosfellsbæ leiddu keppnina lengi vel með einkunnina 8,13 en aðrar sýningar sóttu hart að henni. Það var svo liðsfélagi hennar, Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir á Flóvent frá Breiðstöðum sem áttu virkilega glæsilega og vel útfærða sýningu og skutu þau sér beint á toppinn og stóðu uppi sem sigurvegarar í Gæðingalist Meistaradeildar Líflands 2024.

Í öðru sæti hafnaði Ragnhildur og Úlfur frá Mosfellsbæ og þriðji var Jakob Svavar Sigurðsson og Skarpur frá Kýrholti með 7,80. Í fjórða til fimmta sæti höfnuðu Glódís Rún Sigurðardóttir og Breki frá Austurási ásamt Elínu Holst og Frama frá Ketilsstöðum með einkunnina 7,73. Í sjötta sæti voru Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði með 7,57. Ekki voru riðin úrslit og stóðu því einkunnir úr forkeppni og réðu niðurstöðum.

F.v. Ragnhildur Haraldsdóttir, Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Jakob Svavar Sigurðsson.

Liðakeppni kvöldsins fór þannig að lið Margrétarhofs/Ganghesta sigraði en þau hlutu 50.5 stig. Það voru þær Aðalheiður Anna, Ragnhildur og Sara sem kepptu fyrir þeirra hönd.

F.v. eru Ragnhildur Haraldsdóttir, Sara Sigurbjörnsdóttir og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sem sigruðu liðakeppni Gæðingalistar fyrir hönd Ganghesta /Margrétarhofs. Aðrir liðsfélagar eru Sigurður Matthíasson og Daníel Gunnarsson.

Eftir þessa fjórðu grein af átta leiðir Glódís Rún einstaklingskeppnina með 34.5 stig. Í öðru sæti er Jakob Svavar með 30 stig og Aðalheiður Anna í þriðja sæti með 29 stig. Nýtt lið hefur tekið forystuna í liðakeppninni en lið Ganghesta/Margrétarhofs leiðir nú með 169 stig, þar rétt á eftir er lið Hestvits/Árbakka með 166.5 stig og í því þriðja Hjarðartún með 156 stig.

Glódís Rún Sigurðardóttir og Breki frá Austurási. Glódís leiðir einstaklingskeppnina.

Fram undan er Skeiðmótið en það er haldið á Brávöllum á Selfossi laugardaginn 30. mars næstkomandi klukkan 14:00. Þar verður keppt í tveimur ólíkum skeiðgreinum. Gæðingaskeiði sem er mjög tæknileg skeiðgrein þar sem sýna þarf vel heppnaðan skeið sprett frá upphafi hans til enda. 

Gefnar eru fjórar einkunnir fyrir mismunandi atriði ásamt tímanum sem hesturinn hleypur á 100 metra kafla. Síðan er það 150 metra básaskeið. Þar eru tveimur hestum hleypt út úr bás á sama tíma og sá hestur sem hleypur hraðast 150 metra á skeiði stendur uppi sem sigurvegari. Það má segja að allt sé undir fyrir þessar greinar. Mörg stig í pottinum en á þessu stigi keppninnar breytist oft staðan í stigakeppninni þannig að það er mikilvægt fyrir þá sem nú leiði keppnina að vera vel undirbúnir.

Til vinstri er Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu, sigurvegarar í 150 metra skeiði 2023. Til hægri er Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ, sigurvegarar í gæðingaskeiði 2023.

Í fyrra voru það Árni Björn Pálsson sem sigraði Gæðingaskeiðið og liðsfélagi hans Konráð Valur Sveinsson sem sigraði 150 metra skeiðið. Nú er stóra spurningin - stefna þeir á að endurheimta sigurinn. Það kemur í ljós á Laugardaginn. Við hlökkum til að sjá ykkur í brekkunni á Brávöllum, Selfossi klukkan 14:00!

Liðakeppni Gæðingalist

1. Ganghestar/Margrétarhof 50.5 stig

2. Hjarðartún 39.5 stig

3. Hestvit/Árbakki 36 stig

4. Þjóðólfshagi/Sumarliðabær 33 stig

5. Hrímnir/Hest.is 30.5 stig

6. Austurkot/Pula 22 stig

7. Top Reiter 19.5 stig

Staðan í liðakeppni

1. Ganghestar / Margrétarhof 169 stig

2. Hestvit / Árbakki 166.5 stig

3. Hjarðartún 156 stig

4. Hrímnir / Hest.is 124 stig

5. Top Reiter 118 stig

6. Þjóðólfshagi / Sumarliðabær 106 stig

​7. Austurkot / Pula 83 stig

Staðan í einstaklingskeppni

1. Glódís Rún Sigurðardóttir 34.5 stig

2. Jakob Svavar Sigurðsson 30 stig

3. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir 29 stig

4. Ásmundur Ernir Snorrason 20 stig

5. Ragnhildur Haraldsdóttir 16.75 stig

Aðalheiður Anna og Flóvent frá Breiðstöðum, sigurvegarar gæðingalistar Meistaradeildar Líflands 2024.

NIÐURSTÖÐUR GÆÐINGALIST

1. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir & Flóvent frá Breiðstöðum, Ganghestar / Margrétarhof - 8,27

2. Ragnhildur Haraldsdóttir & Úlfur frá Mosfellsbæ, Ganghestar / Margrétarhof - 8,13

3. Jakob Svavar Sigurðsson & Skarpur frá Kýrholti, Hjarðartún - 7,80

4. Glódís Rún Sigurðardóttir & Breki frá Austurási, Hestvit / Árbakki - 7,73

5. VILLIKÖTTUR, Hjarðartún, Elin Holst & Frami frá Ketilsstöðum - 7,73

6. Ásmundur Ernir Snorrason & Hlökk frá Strandarhöfði Hrímnir / Hest.is - 7,57

7. Þorgeir Ólafsson & Aþena frá Þjóðólfshaga 1, Þjóðólfshagi / Sumarliðabær - 7,53

8. VILLIKÖTTUR, Hrímnir / Hest.is, Arnhildur Helgadóttir & Vala frá Hjarðartúni - 7,43

9. Fredrica Fagerlund & Stormur frá Yztafelli, Hestvit / Árbakki - 7,43

10. VILLIKÖTTUR, Austurkot / Pula, Þórarinn Eymundsson & Þráinn frá Flagbjarnarholti - 7,40

11. VILLIKÖTTUR, Þjóðólfshagi / Sumarliðabær, Bergur Jónsson & Ljósálfur frá Syðri-Gegnishólum - 7,33

12. Teitur Árnason & Hafliði frá Bjarkarey, Top Reiter - 7,20

13. Sara Sigurbjörnsdóttir & Fluga frá Oddhóli, Ganghestar / Margrétarhof - 7,20

14. Hanne Smidesang & Tónn frá Hjarðartúni, UPPBOÐSSÆTI - 7,17

15. Ólafur Andri Guðmundsson & Dröfn frá Feti, Austurkot / Pula -7,13

16. Guðmar Þór Pétursson & Sókrates frá Skáney, Þjóðólfshagi/ Sumarliðabær - 7,07

17. VILLIKÖTTUR, Top Reiter, Guðmunda Ellen Sigurðardóttir & Flaumur frá Fákshólum - 6,93

18. Jóhanna Margrét Snorradóttir & Kormákur frá Kvistum, Hestvit / Árbakki - 6,87

19. Eyrún Ýr Pálsdóttir & Hylur frá Flagbjarnarholti, Top Reiter - 6,80

20. Helga Una Björnsdóttir & Hátíð frá Efri-Fitjum, Hjarðartún - 6,50

21. Jón Ársæll Bergmann & Halldóra frá Hólaborg, Austurkot / Pula - 6,37

22. Benjamín Sandur Ingólfsson & Elding frá Hrímnisholti, Hrímnir/Hest.is - 6,20

Dagskrá vetrarins:

25. janúar - Fjórgangur - 19:00 HorseDay Höllin Ingólfshvoli

8. febrúar - Slaktaumatölt - 19:00 HorseDay Höllin Ingólfshvoli

29. febrúar - Fimmgangur - 19:00 HorseDay Höllin Ingólfshvoli

15. mars - Gæðingalist - 19:00 HorseDay Höllin Ingólfshvoli

30. mars - Gæðingaskeið og 150 m skeið - 14:00 Selfoss Brávöllum

12. apríl - Tölt og 100 m skeið - 19:00 HorseDay Höllin Ingólfshvoli – Lokahátíð





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×