Umræðan

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Hag­stofunni, að skrá­setja skyldi alla í­búa landsins

Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir skrifar

Líkt og fram kom í fréttum, fyrir nokkrum vikum síðan, þá hefur Hagstofan breytt aðferðafræði sinni þegar kemur að því að meta íbúafjölda.

Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna (skattagögnum, nemendagögnum og þjóðskrá).

Niðurstaða Hagstofunnar er sú að þann 1. janúar 2024 hafi íbúar verið um 15.245 færri en samkvæmt eldri aðferð. Þetta ofmat má að mestu rekja til innflytjenda frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ný aðferðafræði nær aftur til ársins 2011 en þar verður þá brot í tímaröðinni. Hér á myndinni má sjá annars vegar ofmat eldri aðferðar á hverju ári og hlutfall ofmats af heildaríbúafjölda samkvæmt nýrri aðferð.

Við sjáum að ofmat á íbúafjölda hefur farið vaxandi frá árinu 2018, sem gæti meðal annars skýrst af kólnandi íslensku hagkerfi árið 2019. Einhverjir þeirra erlendu ríkisborgara sem höfðu komið hingað til vinnu, svo sem í ferðaþjónustu, hafa sennilega snúið aftur heim en ekki skráð sig úr landi hjá Þjóðskrá (skil þá persónulega mjög vel, ég er enn búsett í Barcelona samkvæmt opinberum gögnum þar — enda hef ég ekki hugmynd um hvernig ég eigi að skrá mig út).

Það er auðvitað mikilvægt að vita nokkurn veginn hversu margir eru búsettir hér á landi, ekki síst fyrir helstu hagvísa sem gagnlegt er að horfa á niður á hvern einstakling.

Hér sjáum við áhrif þessara breytinga á mælingar á hagvöxt á mann.

Áhrifin eru ekki veigamikil þegar litið er á hvert ár, með tveimur undantekningum, en uppsafnað frá árinu 2009 erum við nokkuð ríkari á þennan mælikvarða en við héldum áður. Þannig hefur landsframleiðsla á mann vaxið um 22 prósent frá árinu 2009 í stað 18 prósent áður.

Svona verða verðmætin til úr engu!

Höfundur er hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og stjórnarmaður í Hagsmunafélagi kvenna í hagfræði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×