Innherji

Lög­maðurinn John Van De North bætist í hóp eig­enda BBA//Fjeldco

Hörður Ægisson skrifar
Samtals starfa yfir 30 manns á skrifstofum lögmannsstofunnar í Katrínartúni í Reykjavík og í Mayfair í London.
Samtals starfa yfir 30 manns á skrifstofum lögmannsstofunnar í Katrínartúni í Reykjavík og í Mayfair í London.

Íslenska lögmannsstofan BBA//Fjeldco, sem starfrækir meðal annars skrifstofu í Mayfair í London, hefur stækkað teymi sitt þar í borg með því að fá til liðs við sig bandaríska lögmanninn John Van De North. Hann er með áratuga reynslu af ráðgjöf við stór fjármögnunarverkefni og var áður einn eiganda alþjóðlegu lögmannsstofunnar Goodwin í London.

John, sem hefur búið og starfað í London í meira en tuttugu og fimm ár, mun verða einn eigenda BBA//Fjeldco. Hann hefur einkum sérhæft sig í ráðgjafaverkefnum á sviði einkafjármögnunar (e. private equity) og áhættufjármögnunar (e. venture capital) í tengslum við alþjóðleg fjárfestingarverkefni og endurskipulagningu fyrirtækja beggja vegna Atlantsála, að því er segir í tilkynningu frá BBA//Fjeldco.

John hefur um nokkurt skeið verið í hópi eigenda í einkafjármögnunarteymi Goodwin í London en var áður eigandi hjá alþjóðlegu stofunum Kirkland & Ellis og O‘Melveny & Myers, og ráðgefandi hjá Sidley & Austin. Þá var hann einnig forstöðumaður lögfræðisviðs og viðskiptaþróunar fyrirtækis á sviði endurnýjanlegrar orku í Kaliforníu í Bandaríkjunum árin 2012 til 2017. 

Þá er John einn stofnenda góðgerðarstofnunarinnar Girls are Investors (GAIN) í Bretlandi en tilgangur þess er að auka þátttöku kvenna í stjórnun fjárfestinga.

John Van De North hefur um nokkurt skeið verið meðal eigenda í einkafjármögnunarteymi alþjóðlegu lögmannsstofunnar Goodwin í London.

„Það gleður mig að slást í hópinn með vinum mínum hjá BBA//Fjeldco og stuðla að frekari vexti starfseminnar í London. Ég hef lengi fylgst með íslensku viðskiptalífi og hef heillast af þeim krafti og hugviti sem þar býr. Lega landsins í norðri miðja vegu milli Ameríku og Evrópu gerir Ísland að ákjósanlegum upphafspunkti fyrir fjárfestingar á Norðurslóðum,“ segir John Van de North.

Gunnar Þór Þórarinsson, forstöðumaður BBA//Fjeldco í London, segir það vera gríðarlegan feng að fá John til liðs við félagið. „Hann kemur inn með sérþekkingu og reynslu sem er ekki að finna á öðrum íslenskum lögmannsstofum og mun þannig styrkja þjónustu BBA//Fjeldco við bæði íslenska og erlenda viðskiptavini.“

BBA//Fjeldco er ein stærsta lögmannsstofa landsins og hefur einkum sérhæft sig í ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja, og hefur komið að flestum af stærstu samrunum félaga hér á landi síðustu ár. Ekki liggur fyrir ársreikningur síðasta árs en á árinu 2022 var heildarvelta stofunnar samtals yfir 1.400 milljónir og hagnaður eftir skatt um 368 milljónir.

Á stofunni starfa yfir 30 lögfræðingar, sérhæfðir í fyrirtækjalögfræði, með málflutningsréttindi á Íslandi, í Englandi, Frakklandi og New York.

Ásamt Gunnari Þór eru helstu eigendur BBA//Fjeldco þeir Halldór Karl Halldórsson, Bjarki Diego, Baldvin Björn Haraldsson, Kári Ólafsson, Þórir Júlíusson, Páll Jóhannesson og Einar Baldvin Árnason.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×