Viðskipti innlent

Fast­eigna­fé­lag Festar fær nýtt nafn

Atli Ísleifsson skrifar
 Óðinn Árnason.
Óðinn Árnason. Festi

Festi hefur breytt nafninu á Festi fasteignum, einu ekstrarfélaga sinna sem sérhæfir sig í útleigu atvinnuhúsnæðis til félaga í verslunarrekstri og eru fasteignirnar að mestu leyti í útleigu til félaga innan samstæðunnar, það er N1, Krónunnar, Elko og Bakkans. Félagið hefur fengið nafnið Yrki eignir. 

Í tilkynningu kemur fram að nafnabreytingunni sé meðal annars ætlað að draga skýrar fram hlutverk og tækifæri fasteignafélagsins sem sjálfstæðrar rekstrareiningar en auk eigin fasteigna hafi Yrkir frá áramótum tekið við rekstri og umsýslu annarra fasteigna innan samstæðunnar. 

„Breytingunni mun fylgja meiri áhersla á upplýsingagjöf um fasteignarekstur samstæðunnar sem mun endurspeglast í uppgjörum Festi frá og með fyrsta ársfjórðungi 2024.

Hlutverk Yrkis felst einna helst í því að annast rekstur og umsýslu fasteigna sem tilheyra samstæðu Festi, ásamt því að þróa bæði eignir og lóðir með það fyrir augum að auka verðmæti þeirra og arðsemi. Undir félagið heyrir framkvæmdadeild Festi, auk öryggisdeildar en þar að baki býr áralöng reynsla í umsýslu fasteigna og öryggismálum. Framkvæmdastjóri Yrkis eigna er Óðinn Árnason sem var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Festi fasteigna sumarið 2023 og tók um leið sæti í framkvæmdastjórn Festi.

Bókfært virði fasteigna og lóða samstæðunnar nam um 33 milljörðum króna í árslok 2023 og nemur stærð safnsins samtals um 93 þúsund fermetrum sem dreifist um allt land,“ segir í tilkynningunni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×