Viðskipti innlent

Veita eig­endum í­búða í Grinda­vík undan­þágu

Atli Ísleifsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar. Vísir/Vilhelm

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefur ákveðið að rýmka tímabundið lánþegaskilyrði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði í Grindavík 10. nóvember 2023.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá  nefndinni sem birt var í morgun. Þar kemur fram að hámark greiðslubyrðar verði 40 prósent af ráðstöfunartekjum og hámark veðsetningarhlutfalls verði 85 prósent fyrir þessa einstaklinga við næstu kaup þeirra á íbúðarhúsnæði.

Ákveðið hafi verið að grípa til þessa „í ljósi sérstakra aðstæðna sem blasa við í Grindavík“.

Fram kemur að það sé mat nefndarinnar að undanþágan sé ekki til þess fallin að hafa teljandi áhrif á viðnámsþrótt lánveitenda og muni því ekki hafa marktæk áhrif á fjármálastöðugleika.

Almennt viðmið þegar kemur að takmörkunum á fasteignalánum er að hámark greiðslubyrðar af fasteignalánum sé 35 prósent af ráðstöfunartekjum en 40 prósent fyrir fyrstu kaupendur. Þá sé hámark veðsetningarhlutfall 80 prósent af markaðsverði en 85 prósent fyrir fyrstu kaupendur.

Fyrr í mánuðinum kynnti ríkisstjórnin að ríkissjóður myndi bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga í Grindavík og taka yfir þau íbúðalán sem á því hvíla. Er þar um að ræða lið í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miði að því að skapa forsendur fyrir öruggri framtíð fyrir Grindvíkinga í kjölfar eldsumbrotanna á Reykjanesskaga.


Tengdar fréttir

Bjóðast til að kaupa húsnæði Grindvíkinga

Ríkissjóður mun bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga í Grindavík og taka yfir þau íbúðalán sem á því hvíla. Umfang aðgerðarinnar er metið allt að 61 milljarði króna. Frumvarp þessa efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag og hefur verið birt í samráðsgátt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×