Viðskipti innlent

Reginn býðst til að að liðka fyrir yfir­töku með sölu eigna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er forstjóri Regins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er forstjóri Regins. Vísir/Vilhelm

Fasteignafélagið Reginn óskaði á föstudag eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið í tengslum við fyrirhugaðrar yfirtöku á öllu hlutafé Eikar fasteignafélags. Reginn býðst til að selja eignir til að vinna gegn skaðlegum áhrifum á samkeppni vegna samrunans.

Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallar í dag. Þar er rifjað upp að Reginn hafi í júní 2023 tilkynnt um ákvörðun stjórnar að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar.

Tilboðið er meðal annars háð því skilyrði að Samkeppniseftirlitið samþykki viðskiptin eða geri ekki athugasemdir við þau sem Reginn geti ekki sætt sig við. Samkeppniseftirlitið hefur haft málið á borði sínu og andmælt fyrirhuguðum kaupum. Áhyggjur eftirlitsins snúa að því að viðskiptin hindri virka samkeppni og verði ekki samþykkt að óbreyttu.

Reginn óskaði í framhaldi af því eftir sáttaviðræðum við eftirlitið á föstudag um hugsanleg skilyrði vegna viðskiptanna.

„Samhliða voru lögð fram sjónarmið félagsins að því er varðar frummat Samkeppnislitsins ásamt hugmyndum að skilyrðum. Tillögur Regins að skilyrðum lúta meðal annars að því að sameinað félag Regins og Eikar selji frá sér tilteknar eignir í því skyni að vinna gegn skaðlegum áhrifum sem Samkeppniseftirlitið telur að gætu leitt af viðskiptunum. Umræddar tillögur Regins að skilyrðum eru nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu,“ segir í tilkynning Regins.

„Vegna framangreinds hafa tímafrestir Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar á viðskiptunum framlengst um fimmtán virka daga. Tímafrestur Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar á samrunanum hefur því framlengst til 5. apríl næstkomandi. Gildistími tilboðsins rennur út þann 15. apríl.“


Tengdar fréttir

For­stjóri Regins minnkar stöðu sína og tekur á sig tap vegna fram­virks samnings

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, hefur minnkað hlutafjáreign sína í fasteignfélaginu um meira en helming en hún hafði verið í gegnum framvirka samninga. Hann segir við Innherja að það hafi verið vandasöm staða samhliða hækkandi vöxtum og lækkunum á mörkuðum og því ákveðið að losa um hana og „innleysa tapið.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×