Körfubolti

Verð­skuldað fyrir vonarstjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Valur Þrastarson í leik með Þórsliðinu í vetur.
Tómas Valur Þrastarson í leik með Þórsliðinu í vetur. Vísir/Bára

Tómas Valur Þrastarson er búinn að spila sig inn í íslenska A-landsliðið með flottri frammistöðu sinni með Þórsurum í Subway deild karla í körfubolta.

„Hann er valinn í landsliðið í fyrsta skiptið,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Subway Körfuboltakvölds.

„Það er bara flott og verðskuldað,“ sagði Helgi Már Magnússon, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„23 stig í þessum leik á móti Blikum og hann getur allt þessi strákur,“ sagði Stefán Árni.

„Vonandi nýtir hann þessar æfingar vel og sýnir landsliðsþjálfaranum hvað í honum býr innan hópsins,“ sagði Helgi.

Klippa: Körfuboltakvöld: Tómas Valur valinn í landsliðið

„Hvað gerir það fyrir ungan dreng að vera valinn í landsliðið og fá að æfa með íslenska landsliðið,“ spurði Stefán.

„Það er bara risastórt. Gaman að spreyta sig á móti þessum bestu og máta sig við þá. Hvar stend ég? Talandi ekki um ef hann kemst í liðið, fá að upplifa það að heyra þjóðsönginn og fá gæsahúð. Vera tilbúinn á bekknum að koma inn á völlinn og nýta þær mínútur sem hann fær,“ sagði Helgi.

„Þetta er risastór fyrir hann og mér finnst hann vera búinn að vera að vaxa í allan vetur,“ sagði Helgi.

„Hann er búinn að vera að máta sig við bestu leikmenn deildarinnar, erlenda atvinnumenn, þar sem hann er síður en svo að lúta í lægra haldi. Þetta er klárlega verðskuldað,“ sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Hann fer inn í þetta auðmjúkur og stoltur af því að vera valinn í landsliðið. Á sama tíma: Hey, ég er mættur hingað til að gera hluti. Ég er vonarstjarna Íslands. Hann á svolítið að taka við keflinu,“ sagði Sævar.

Það má horfa á umfjöllunina hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×