Viðskipti innlent

Bónuskerfi Skattsins af­numið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Húsakynni Skattsins í Borgartúni.
Húsakynni Skattsins í Borgartúni. Vísir

Ákveðið hefur verið að afnema svokallað viðbótarlaunakerfi starfsmanna Skattsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Áður hefur Snorri Olsen, ríkisskattstjóri sagt í samtali við fréttastofu að ekki séu tengsl á milli bónusanna og þess hverju starfsmenn skili í kassann. Undanfarin fjögur ár hafa verið greiddar út 260 milljónir króna í bónusa til starfsfólks.

Áréttað er í tilkynningu Skattsins að handbók BHM og fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafi verið fylgt við greiðslu viðbótarlauna. Hún hafi byggst á heildstæðu mati tiltekinna þátta sem tilgreindir séu í stofnanasamningum.

Þá hafi aðildarfélög í BHM staðfest að framkvæmd Skattsins um gerð stofnanasamninga sé í fulu samræmi við ákvæði kjarasamninga og reglur og leiðbeiningar sem samningsaðilar hafi gefið út. Ekki hafi verið séð að vankantar hafi verið á framkvæmd Skattsins á viðbótarlaunakerfi stofnunarinnar.

„Þrátt fyrir þær staðreyndir sem að framan eru raktar þá hefur á opinberum vettvangi verið uppi töluverð gagnrýni á að viðbótarlaun séu hluti af launakerfi Skattsins. Hefur sú gagnrýni og umfjöllun um eðli og framkvæmd viðbótarlaunakerfis hjá stofnuninni meðal annars miðað að því að draga úr trúverðugleika skattyfirvalda og varpa rýrð á störf þeirra,“ segir í tilkynningunni.

„Nú er svo komið að þó að Skatturinn og aðildarfélög í BHM telji umrætt viðbótarlaunakerfi vera nútímalegt og gott kerfi sem hafi reynst öllum samningsaðilum vel, þá verður ekki við það unað í ljósi þeirrar stefnu sem umræðan um það hefur tekið. Því hefur Skatturinn ákveðið að leggja af viðbótarlaunakerfið og samið við aðildarfélög BHM um slíka breytingu sem tekur gildi frá og með síðustu áramótum.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×