Viðskipti innlent

Suðurnesjabær býður Höllu vel­komna til Sand­gerðis

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Halla við opnun veitingastaðar síns í Leifsstöð.
Halla við opnun veitingastaðar síns í Leifsstöð.

Halla María Svansdóttir, veitingakona í Grindavík sem rekið hefur veitingastaðinn hjá Höllu í heimabæ sínum hefur samið við Suðurnesjabæ um aðstöðu í Vörðunni í Sandgerði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum. Eins og Vísir hefur greint frá hefur Halla leitað að atvinnuhúsnæði til leigu í eitt til tvö ár í kjölfar atburðanna í Grindavík.

Hjá Höllu hefur verið rekinn í Grindavík frá árinu 2016 og áherslan lögð á heimilislegan og hollan mat. Um leið hefur verið reynt að svara kalli viðskiptavinarins. Halla fór í útrás árið 2018 og opnaði Hjá Höllu á Keflavíkurflugvelli sem notið hefur mikilla vinsælda.

Bærinn hafði samband

Suðurnesjabær segir í tilkynningu sinni að Halla hafi verið einn þeirra fyrirtækjaeigenda sem leitað hafi að húsnæði til að halda starfsemi sinni gangandi.

„Svo vel vill til að í Vörðunni í Sandgerði er tilbúið framleiðslueldhús, sem hefur verið lítið notað mörg undanfarin ár. Suðurnesjabær hafði samband við Höllu fyrir nokkru síðan og benti henni á þann möguleika að nýta eldhúsið fyrir sína starfsemi.“

Segir bærinn að gengið hafi verið frá samningum við fyrirtæki Höllu um leigu á eldhúsinu. Ásamt vinnslueldhúsi muni Halla verða með afgreiðslu þar sem viðskiptavinir munu geta sótt sínar pantanir. Hún muni auk þess framleiða þar vörur fyrir fyrirtækja-og veisluþjónustu sína, ásamt vörum fyrir veitingastaðinn Hjá Höllu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Óvissan hefur verið mikil hjá Grindvíkingum undanfarin ár. Rætt var við Höllu í Íslandi í dag árið 2021 þegar gaus í Fagradalsfjalli.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×