Viðskipti innlent

Bláa lónið vel sótt um helgina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mynd er úr safni.
Mynd er úr safni. Vísir/Vilhelm

Bláa lónið var vel sótt um helgina að sögn framkvæmdastjóra Bláa lónsins. Lónið var opnað að nýju á laugardag eftir að hafa verið lokað í flýti sunnudaginn helgina áður þegar gaus í Grindavík.

„Þetta voru þá aðallega gestir sem voru búnir að bóka og höfðu beðið með að afbóka til að sjá hvort við værum búin að opna þegar að þeirra degi kæmi. Svo var töluvert af nýjum bókunum sem komu inn um helgina,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, rekstrar-og þjónustu hjá Bláa lóninu.

Hún hefur ekki tölu yfir nákvæman fjölda gesta sem sótti lónið heim um helgina. Hún sagði í samtali við fréttastofu á laugardag að starfsfólk lónsins hefði ekki farið varhluta af því að ferðamenn veigruðu sér við að bóka sig í lónið. Rætt var við ferðamenn í kvöldfréttum Stöðvar 2 um helgina sem báru lóninu góða sögu á tímum jarðhræringa.

Helga segist eiga von á því að næstu dagar verði svipaðir í aðsókn. Helgarnar séu þó almennt þannig að fleiri sæki lónið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×