Viðskipti innlent

Strand í við­ræðum um krónu­tölu­hækkun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA segir viðræður hafa gengið vel en varar við krónutöluhækkun sem forsendu viðræðna.
Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA segir viðræður hafa gengið vel en varar við krónutöluhækkun sem forsendu viðræðna. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins vara við því að krónutölunálgun sé höfð að leiðarljósi við gerð kjarasamninga. Það valdi því að kostnaður sé vanmetinn við upphaf kjaraviðræða. Breiðfylking stærstu stéttarfélaga og landssambanda á almennum vinnumarkaði segir Samtök atvinnulífsins hafna nálgun fylkingarinnar um þjóðarsátt. 

Fulltrúar Breiðfylkingarinnar svonefndu sögðu í tilkynningu í gær að eftir farsælar viðræður í upphafi hafi farið fram tímafrek og á köflum mjög tæknileg umræða milli samningsaðila um reiknilíkön.

„Í þeim umræðum hafa SA smátt og smátt fjarlægt sig frá upphaflegum, jákvæðum viðbrögðum sínum. SA hafa fengið það út að tillögur Breiðfylkingarinnar séu of kostnaðarsamar og í staðinn sett fram tillögur sem eru langt neðan við þær hóflegu hækkanir sem Breiðfylkingin lagði til í upphafi viðræðna,“ sagði í tilkynningu sem fimm formenn landssambanda og stéttarfélaga kvittuðu undir.

Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins og Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri svara tilkynningunni með eigin tilkynningu í morgunsárið. Af henni má skilja að krónutöluhækkun, sem Breiðfylkingin hafi lagt upp með, sé eitthvað sem SA vilji forðast að leggja upp með. Hún hafi reynst of kostnaðarsöm og stefnt í launaskrið.

„Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði hafa undanfarið unnið að því hörðum höndum í sameiginlegu átaki að skapa skilyrði fyrir langtíma kjarasamningum sem hafi það meginmarkmið að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þannig geti verðbólga minnkað, unnt verði að lækka vexti og bæta þannig lífskjör almennings í landinu og rekstrarumhverfi fyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.

Sameiginleg samningsmarkmið þeirra samninga sem unnið hafi verið að undanfarið, séu í samræmi við áherslur Samtaka atvinnulífsins og ályktanir opinna vinnufunda samtakanna, sem voru haldnir um allt land á liðnum haustmánuðum.

„Samstarf SA og breiðfylkingarinnar hefur gengið vel og umtalsverður árangur náðst í að rýna þær áskoranir sem eru í veginum og stilla af mismunandi áherslur. Aðilar beggja megin borðs hafa orðið sammála um að forsenda fyrir því að markmið náist um nýja þjóðarsátt, sé að allir aðilar vinnumarkaðarins leggist á eitt og enginn skorist undan ábyrgð. Í því ljósi skoraði stjórn SA nýlega á aðildarfélög sín, önnur fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að styðja við fyrrgreind markmið kjarasamninga, eins og þeim frekast er unnt, með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði.“

Að baki liggi mikil vinna og gagnkvæmur skilningur á sérstökum kröfum um hækkun lægstu launa, svo kölluð „krónutöluhækkun“. 

„Sú áhersla er vel skiljanleg í samfélagi sem leggur áherslu á jöfnuð. Það liggur enda fyrir, að þau sem hafa lægstu launin þurfa einna mest á kjarasamningsbundnum launahækkunum að halda, sérstaklega þegar verðbólga er mikil. Verðhækkanir á nauðsynjavörum og húsnæði vega þyngra í útgjöldum launalægri hópa en launahærri hópa. Þeir eru líklegri til þess að fá greidd laun samkvæmt taxta, eru síður á markaðslaunum og njóta síður launaskriðs.“

Þó sé rétt að undirstrika, að launahækkanir í krónutölum séu líka hlutfallslegar launahækkanir þótt þær væru mismiklar eftir hópum. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Vísir/Einar

„Sagan sýnir okkur því miður með óyggjandi hætti að þær hlutfallslegu hækkanir sem eiga sér stað neðar í launastiganum skila sér upp stigann í formi launaskriðs þar sem fólk mun áfram krefjast umbunar fyrir aukna menntun, reynslu og ábyrgð. Þegar krónutölunálgun er höfð að leiðarljósi við gerð kjarasamninga eru kostnaðaráhrifin því oft vanmetin í upphafi.“

Þess vegna hafi Samtök atvinnulífsins lagt upp með aðferðafræði sem taki mið af þessu, fari bil beggja og sé líkleg til að geta staðið undir nafni sem ný þjóðarsátt; þar sem tekið sé tillit til ólíkra hópa og ólíkra greina og þar sem efnahagslegum stöðugleika væri ekki raskað, heldur þvert á móti byggt undir skilyrði til jafnvægis og eðlilegrar verðmætasköpunar.

„Samtök atvinnulífsins eru jafn sannfærð og áður um að samstaða muni skila hagfelldri niðurstöðu við samningaborðið og lýsa sig eindregið tilbúin til að ljúka gerð nýrra langtímasamninga á grundvelli þessarar vinnu. Allir munu þurfa að gefa eitthvað eftir, allir munu þurfa að leggja töluvert á sig, en niðurstaðan verður að vera í samræmi við efnahagslegan veruleika og getu þjóðarbúsins. Við viljum öll efnahagslegan stöðugleika og geta gert framtíðaráætlanir sem standast.“


Tengdar fréttir

Segja SA hafna sinni nálgun um þjóðarsátt

Breiðfylking stærstu stéttarfélaga og landssambanda á almennum vinnumarkaði segir Samtök atvinnulífsins hafna nálgun fylkingarinnar um þjóðarsátt. Hún hvetur SA til að rýna betur tillögur hennar og endurgjalda auðsýndan samningsvilja.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×