Neytendur

For­dæmir við­brögð Play eftir að taska gjör­eyði­lagðist í flugi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eins og sjá má á myndinni þá gjöreyðilagðist taskan.
Eins og sjá má á myndinni þá gjöreyðilagðist taskan. Sverrir Jörstad Sverrisson

„Við komuna á Kastrup fór ég eins og venja er að ná í töskuna mína en í stað þess að fá hana til baka eins og venjulega þá kom taskan til mín gjörsamlega í henglum brotin á alla kanta og hékk bókstaflega saman á lyginni einni saman.“

Þannig hefst lýsing Sverris Jörstad Sverrissonar sem hann birtir á Facebook en þar greinir hann frá atviki sem átti sér stað þegar hann flaug í fjölskyldu- og jólaferð til Kaupmannahafnar í byrjun desember og eftirmálum.

Hann segir farir sínar ekki sléttar og er ósáttur við viðbrögð flugfélagsins Play, sem hann segir hafa boðið sér nokkra þúsundkalla í bætur. Bæturnar dugi engan veginn fyrir nýrri tösku né séu þær jafn háar og gjaldið sem hann greiddi fyrir að mega taka töskuna, sem fór í ruslið í Kaupmannahöfn, út og heim aftur.

„Mér datt helst í hug að hún hefði dottið af töskubílnum, töskubíllinn hefði svo keyrt yfir hana, ætlað síðan að bakka til að sækja hana og þá bakkað yfir hana aftur. Það eða fílahjörð hefði trampað á henni. Starfsmaður flugvallarins sem sá hana koma á bandinu benti mér á að fara strax og gera skýrslu um málið svo ég myndi fá töskuna bætta. Ég tók myndir af töskunni og svo fór hún bara í ruslið,“ segir Sverrir.

Hann birtir myndir af töskunni máli sínu til staðfestingar.

Buðu ekki einu sinni upphæðina sem hann greiddi fyrir flutninginn

Þegar heim var komið hafði hann samband við Play og sótti um bætur. Var hann beðinn um kvittun fyrir töskunni en sagðist eðlilega ekki hafa átt hana til. Fullrúi Play sagði þá að þar sem hann gæti ekki framvísað kvittun gætu þeir aðeins boðið honum 50 evrur í bætur, sem var hækkað í 70 evrur þegar Sverrir benti þeim á að 50 evrur væru ekki einu sinni gjaldið sem hann hefði borgað Play fyrir að „fljúga með töskuna og eyðileggja hana“.

Sverri þykir þetta nokkuð súrt; hann hafi borgað 8.280 krónur fyrir að fá að fljúga með töskuna, hún hafi verið eyðilögð og hann þar af leiðandi ekki nýtt sér töskukvótann heim, heldur fengið að koma dótinu sínu fyrir í töskum ferðafélaga sinna.

Þess fyrir utan dugi hinar 10.586 krónur sem Play hafi boðið honum í bætur engan veginn til kaupa á sambærilegri tösku.

„Þegar þarna var komið benti starfsmaður Play mér á að sumar töskur væru bara ódýrar og lélegar. Þarna var þetta allt einhvern veginn orðið mér að kenna að kaupa svona ljóta og lélega tösku. Eina sem ég vil fá er bætur sem gera mér kleift að kaupa nýja tösku á Íslandi. Þeir mega fara sjálfir ef þeir vilja og kaupa nýja tösku, þá allra ódýrustu sem þeir finna og afhenda mér, en það er alveg ljóst að ég fæ enga sambærilega ferðatösku fyrir 10.586 kr. og það er í raun alveg fáránlegt að þeir í minnsta lagi endurgreiði mér ekki líka fyrir gjaldið sem ég borgaði fyrir að fara með töskuna í flug,“ segir Sverrir.

„Til gamans má benda á að 4 starfsmenn Play eru búnir að eyða tíma í að svara mér og vinna í þessu máli. Hvað kostar það?“

Sverrir segir málið kjánalegt og löngu hætt að snúast um „einhverja þúsundkalla“.

„Í mínum huga er þetta sára einfalt, ég flaug með Play og taskan mín eyðilagðist á meðan hún var á þeirra ábyrgð. Um það eru allir sammála. Nú vil ég bara fá sanngjarnar bætur fyrir þetta tjón.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×