Viðskipti innlent

Fossaforstjórarnir veð­setja allt sitt í VÍS

Árni Sæberg skrifar
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri samstæðu VÍS og fyrrverandi forstjóri Fossa, og Steingrímur Arnar Finnsson.
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri samstæðu VÍS og fyrrverandi forstjóri Fossa, og Steingrímur Arnar Finnsson. Fossar

Haraldur I. Þórðarson, forstjóri samstæðu VÍS og fyrrverandi forstjóri Fossa, og Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa, hafa sett alla hluti sína í VÍS, sem þeir eignuðust í kjölfar sameiningar félaganna tveggja, að veði til tryggingar lánasamningum. Samanlagt virði hlutanna er tæplega 1,5 milljarðar króna.

Þetta segir í tilkynningu VÍS til Kauphallar eftir lokun markaða í gær. Þar segir að félögin H3 ehf., sem Haraldur á ásamt eiginkonu sinni Ragnhildi Ágústsdóttur, og Kormákur invest ehf., sem Steingrímur Arnar á, hafi veðsett hluti sína í VÍS til tryggingar lánssamningi.

H3 fer með 50,985 milljónir hluta, sem metnir eru á um 850 milljónir króna, og Kormákur invest með 35,614 milljónir hluta, sem metnir eru á um 600 milljónir króna.

Í tilkynningu segir að hlutir í Fossum fjárfestingarbanka hf., sem voru í eigu félaganna tveggja, upphaflega meðal annars í gegnum félagið Fossar Markets Holding ehf. (FMH), hafi að hluta til verið fjármagnaðir með lánsfjármagni sem tryggt var með veði í hlutum í Fossum fjárfestingarbanka hf. 

Við slit félagsins FMH hafi hluthafar þess, þar með talið félögin tvö, yfir eignir og skuldir félagsins, hlutfallslega í samræmi við hlutafjáreign sína, þar á meðal lán sem tryggt var með veði í hlutum í Fossum fjárfestingarbanka hf..

Nýtilkomin skylda til að tilkynna veðsetningu

Við sameiningu Vátryggingafélags Íslands hf., VÍS, og Fossa fjárfestingarbanka hf., sem kom til framkvæmda hinn 2. október 2023, hafi félögin eignast áðurnefnda hluti í VÍS gegn afhendingu hluta sinna í Fossum fjárfestingarbanka hf.. Framangreind lán félaganna hafi nú verið endurfjármögnuð með bankaláni og í samræmi evrópureglugerð um markaðssvik, MAR, sé upplýst um að félögin hafi sett hluti sína í VÍS að veði til tryggingar greiðslu lánsins.

Við sameiningu VÍS og Fossa varð Haraldur annar forstjóra VÍS, ásamt Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, og Steingrímur Arnar tók við forstjórastóli Fossa, sem nú er dótturfyrirtæki VÍS.


Tengdar fréttir

Veðsetja alla hluti sína í VÍS og Kaldalóni

Fjárfestingafélagið Skel hefur veðsett alla hluti sína í félögunum VÍS og Kaldalóni, helstu skráðu félögunum í eignasafni Skeljar. Forstjórinn segir um hefðbundna fjármögnun að ræða.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×