Um­fjöllun og við­töl: Grinda­vík - Haukar 89 - 75 | Grind­víkingar tóku yfir í seinni

Siggeir Ævarsson skrifar
Dedrick Basile var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld
Dedrick Basile var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Grindavík tók á móti Haukum í afar mikilvægum leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppni Subway deildar karla.

Liðin voru að mætast í annað sinn á fjórum dögum í Smáranum í kvöld en liðin mættust í VÍS-bikarnum á mánudag þar sem Grindvíkingar höfðu að lokum betur í hörkuspennandi leik.

Ein breyting varð á liðunum á milli leikja, þar sem David Okeke var aftur mættur til starfa eftir að hafa fengið tvö hjartastopp í leik þann 23. nóvember síðastliðinn. Hann fór þó ekki rakleiðis í byrjunarliðið en lét vel sín taka þegar hann kom inn á.

Grindvíkingar voru í stökustu vandræðum með að verjast honum í teignum, enda enginn eiginlegur miðherji í röðum Grindvíkinga þessa dagana eftir að Matija Jokic var látinn taka pokann sinn á dögunum.

Leikurinn þróaðist ekki ósvipað í fyrri hálfleik og síðasta viðureign liðanna. Grindvíkingar náðu upp forskoti og Haukar komu til baka. Grindavík leiddi með einu stigi eftir fyrsta leikhluta og sama staða var uppi á teningnum í hálfleik, staðan 44-43.

Heimamenn náðu loks að slíta sig aðeins frá gestunum í þriðja leikhluta, en Damier Pitts skoraði ellefu af 14 stigum Hauka í leikhlutanum. Grindvíkingar lögðu þar grunninn að sigrinum og héldu góðum dampi allt til loka leiks.

Sanngjarn sigur Grindavíkur niðurstaðan í kvöld en ljóst að Haukar þurfa að ná betra jafnvægi og samspili í sinn leik ef þeir ætla sér að berjast um sæti í úrslitakeppninni eftir áramót. 

Af hverju vann Grindavík?

Grindvíkingar voru ekki að hitta neitt sérstaklega vel fyrir utan en létu það ekki hafa áhrif á sjálfstraustið og stóru skotin duttu þegar á reyndi. Barátta Grindvíkinga var einnig til fyrirmyndar og varnarleikurinn í seinni hálfleik fyrsta flokks.

Skjáskot

Hverjir stóðu upp úr?

Það voru margir sem lögðu drjúgt í púkkið fyrir Grindavík í kvöld. Dedrick Basile fór fyrir stigaskori Grindvíkinga í kvöld eins og stundum áður. Hann brenndi varnarmenn Hauka ítrekað með hraða sínum og skoraði 20 stig alls. Bætti við sjö fráköstum og fjórum stoðsendingum.

Kristófer Breki Gylfason var funheitur fyrir utan, fjórir af átta í þristum og 16 stig frá honum.

Þá buðu þeir Daniel Mortensen og Ólafur Ólafsson báðir uppá tvöfaldar tvennur. 17 stig og ellefu fráköst hjá Ólafi, 14 stig og tólf fráköst frá Mortensen.

Hjá Haukum var Damier Pitts stigahæstur með 16 stig, en hitti aðeins úr fimm skotum sínum utan af velli í 20 tilraunum. Osku Heinonen kom næstur með 15 en sóknarlega hafa Haukar oft átt betra kvöld en þetta.

Hvað gekk illa?

DeAndre Kane gekk illa að komast í takt við leikinn í kvöld og lauk leik með eitt stig. Því skal reyndar haldið til haga að Kane er að glíma við meiðsli í nára og varði hann því seinni hálfleik á bekknum í hvíld og lék aðeins tæpar 15 mínútur.

Hvað gerist næst?

Liðin eru komin í langt jólafrí en eiga leiki næst fimmtudaginn 4. janúar. Haukar taka þá á móti Breiðabliki og Grindavík heimsækir lið Hattar á Egilsstöðum.

Jóhann Þór: „Orkan og krafturinn í okkur til fyrirmyndar“

Jóhann Þór fer léttur inn í jólinVísir/Vilhelm

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var sáttur með framförina á leik sinna manna á milli leikja í vikunni og sagði að þessi leikur hefði gengið mun betur en síðasta viðureign liðanna.

„Talsvert betur. Tilfinningin í fyrri hálfleik var sú að við þyrftum aðeins að skrúfa upp orkuna og þá myndum við ná yfirhöndinni og það gerðist. Varnarlega í seinni hálfleik fannst mér við mjög góðir og orkan og krafturinn í okkur til fyrirmyndar.“ 

„Við settum opin skot, þeir náttúrulega „gömbluðu“ á ákveðna leikmenn eins og Breka sem stóð sig mjög vel og hitti vel. Ólafur loksins bara vonandi kominn til að vera. Valur líka og fengum kraft frá Arnóri eins og þetta á að vera. Þannig að ég er mjög sáttur.“

David Okeke var nokkuð óvænt mættur til leiks í kvöld. Jóhann sagði að það hefði komið honum töluvert á óvart en hefði svo sem ekki haft áhrif á upplegg Grindvíkinga.

„Ég reiknaði ekki með að hann myndi spila, alls ekki. Það kom mér mjög á óvart ef ég á að segja alveg eins og er. En eins og ég sagði við þig hérna í byrjun að við myndum bara halda okkur við það sem við lögðum upp með og bregðast við ef þess þyrfti. Það kom svo sem ekkert til þess.“

Það vakti óneitanlega athygli að DeAndre Kane skyldi ekki taka þátt í leiknum í seinni hálfleik en það átti sér eðlilegar skýringar að sögn Jóhanns.

„Hann er búinn að vera frá síðan á mánudaginn og hefur ekkert æft í vikunni. Búinn að vera eitthvað að ströggla með nárann á sér. Og fleiri svo sem laskaðir. Í ljósi undirbúnings og hvernig menn voru einhvern veginn laskaðir er ég bara hrikalega sáttur með tvö stig.“

Tveir sigrar í röð fyrir jólafrí hljóta að fara vel í sálartetur Grindvíkinga? 

„Algjörlega. Gott að fara í jólafrí með þetta á bakinu, jákvæða orku og jákvæða strauma. Okkur veitir ekkert af því. Virkilega flott að kreista út þennan sigur og fá flotta frammistöðu eins og við sýndum hérna í seinni hálfleik. Virkilega ánægður með þetta. Nú tekur við gott jólafrí og svo mætum við galvaskir til leiks eftir áramót.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira