Viðskipti innlent

Lands­bankinn selur hlutinn í Keahótelum sem tekinn var upp í skuldir

Árni Sæberg skrifar
Keahótel rekur alls tíu hótel á landinu, þar á meðal Hótel Borg.
Keahótel rekur alls tíu hótel á landinu, þar á meðal Hótel Borg. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hefur auglýst 35 prósent hlut sinn í Keahótelum ehf. til sölu. Bankinn eignaðist hlutinn eftir endurskipulagningu félagsins sem fól í sér að skuldum við bankann var breytt í hlutafé.

Í tilkynningu á vef Landsbankans segir að Hömlur fyrirtæki ehf., dótturfélag Landsbankans, bjóði til sölu 35 prósent eignarhlut í hótelkeðjunni Keahótel ehf.. Söluferlið fari fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og sé opið öllum fjárfestum sem uppfylla ákveðin skilyrði fyrir þátttöku í söluferlinu, svo sem um fjárhagslega getu.

Keahótel sé ein stærsta hótelkeðja Íslands. Innan keðjunnar séu tíu hótel með 940 herbergjum og hótelin séu í Reykjavík, á Akureyri, í Grímsnesi, á Vík og Siglufirði.

Eignaðist hlutinn í miðjum faraldrinum

Landsbankinn eignaðist 35 prósent hlut í Keahótelum í desember árið 2020 þegar félagið, líkt og flestar hótelkeðjur, barðist í bökkum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Samkomulag náðist um endurskipulagningu Keahótela sem var sagt tryggja félaginu stöðugan rekstrargrundvöll til ársins 2022. Í samkomulaginu fólst að hluta skulda var breytt í hlutafé, að Landsbankinn eignaðist ríflega þriðjungs hlut í félaginu, og að þáverandi eigendahópur kæmi með nýtt fé inn í reksturinn.

Frá því að Landsbankinn kom inn í hluthafahópinn hafa umsvif hótelkeðjunnar aukist nokkuð með kaupum á Sigló Hóteli árið 2022 og Hótel Grímsborgum í sumar.

Erlendir fjárfestar eignuðust meirihluta í Keahótelum árið 2017 þegar bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Pt Capital Advisors keypti fimmtíu prósenta hlut í hótelkeðjunni og bandaríska fjárfestingar- og fasteignaþróunarfélagið JL Properties, sem er með aðsetur í Anchorage í Alsaka, 25 prósenta hlut.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×