Viðskipti innlent

Banda­rískur til­boðs­gjafi metur Marel á 363 milljarða króna

Árni Sæberg skrifar
Það er óhætt að segja að það hafi gustað um Marel síðustu vikur.
Það er óhætt að segja að það hafi gustað um Marel síðustu vikur. Vísir/Vilhelm

Marel hefur tilkynnt að John Bean Technologies Corporation (JBT) sé fyrirtækið sem lagði fram óskuldbindandi viljayfirlýsingu, varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í Marel.

Í tilkynningu Marels til Kauphallar í morgun sagði að félaginu hefði borist óskuldbindandi viljayfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu.

„Í viljayfirlýsingunni kemur skýrt fram að ekki sé um að ræða lagalega bindandi skuldbindingu og að verði valkvætt yfirtökutilboð lagt fram á síðari stigum, yrði slíkt tilboð háð margvíslegum skilyrðum. Viljayfirlýsingunni fylgdi óafturkallanleg yfirlýsing Eyris Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um samþykki Eyris Invest hf. verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna,“ sagði í tilkynningunni.

Bjóða 472 krónur á hlut

Í annarri tilkynningu Marel til Kauphallar segir að í óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT sé fyrirhugað verð 3,15 evrur á hlut, 482 krónur á hlut miðað við gengi dagsins, fyrir allt útistandandi hlutafé í Marel. Þá sé tillaga JBT að verðmati byggð á þeirri forsendu að útistandandi hlutir séu 754 milljónir og staða áhvílandi lána nemi 827 milljónum evra.

Miðað við þær forsendur metur JBT virði Marel á 363,4 milljarða króna.

Þá segir að gert sé ráð fyrir því að 25 prósent af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og 75 prósent verði í formi hlutabréfa í JBT. Það komi jafnframt fram að hluthafar Marel muni eiga um það bil 36 prósent af hlutum í JBT eftir möguleg viðskipti. Engar frekari upplýsingar komi fram eða liggi fyrir um gengi hluta í JBT eða hugsanlegt skiptigengi.

Loks segir að í viljayfirlýsingin sé tekið fram að valfrjálst yfirtökutilboð verði aðeins sent að undangenginni ásættanlegri niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og stjórnarsamþykki JBT. Þá komi fram að mögulegt valfrjálst yfirtökutilboð JBT, þegar og ef það verður lagt fram, verði háð eftirfarandi fyrirvörum:

  • Samþykki viðeigandi eftirlitsaðila
  • Samþykki hluthafa JBT
  • Að a.m.k. 90% hluthafa Marel samþykki tilboðið
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×