Atvinnulíf

Hætti að hlaupa og keypti sér pylsu, kók og súkku­laði

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Magnús Hafliðason, forstjóri Dominos stefnir að því að byrja aftur að hlaupa en í sumar hætti hann allt í einu í miðju hlaupi, keypti sér pylsu, kók og súkkulaði, hringdi í eiginkonuna og bað hana um að koma og sækja sig. 
Magnús Hafliðason, forstjóri Dominos stefnir að því að byrja aftur að hlaupa en í sumar hætti hann allt í einu í miðju hlaupi, keypti sér pylsu, kók og súkkulaði, hringdi í eiginkonuna og bað hana um að koma og sækja sig.  Vísir/Vilhelm

Magnús Hafliðason forstjóri Dominos viðurkennir að geta nefnt alla helstu leikendur Love Island og eins að hann sé nokkuð stressaðri en eiginkonan á morgnana yfir því hvort allt náist ekki á tíma.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég á mér ákveðna drauma um að verða meiri A týpa en vakna yfirleitt rúmlega sjö þó vekjarinn sé ef til vill stilltur eitthvað fyrr oftar en ekki. Reyndi á tímabili að vakna 05:30 og fara á æfingu en það entist ekki lengi. Mögulega kemur þetta með aldrinum og ég næ að verða meiri morgunhani eftir því sem árin færast yfir mann. „

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Oftar en ekki er fyrsta verk að ræsa heimilisfólkið eftir að hafa litið eldsnöggt á tölvupóst og mögulega forsíður fréttamiðlana. Þetta er hlutverk sem hefur einhvernveginn fest við mig sem er hálf ótrúlegt miðað við hve erfitt ég átti með að vakna á mínum yngri árum.

Eftir snögga sturtu fer ég aftur inn til unglingsins á heimilinu sem yfirleitt þarf tvær atlögur að því að vakna áður en ég fer upp og set hafragrautinn í gang sem er orðinn staðlaður morgunmatur á heimilinu, sérstaklega fyrir yngri son minn sem vill ekki sjá neitt annað. Sjálfur læt ég duga að fá mér kaffibolla og vatnsglas, mögulega með Unbroken út í ef mikið liggur við. 

Morgunverk heimilisins skiptast milli okkar hjónana þar sem hún nálgast verkefnin af meiri yfirvegun, mögulega með núvitundaræfingu í eyrunum í göngutúr með hundinn á meðan ég er öllu stressaðari yfir því að allt náist í tíma. 

Allt hefst þetta nú samt og líklega eitthvað sem ég mætti læra af því.“

Nefndu stórtækustu draumana frá því að þú varst lítill um hvað þú ætlaðir að vera þegar þú yrðir stór?

„Ég minnist þess að hafa frá unga aldri haft það á stefnuskránni að enda ekki í hefðbundinni 9-til-5 vinnu. Á þeim tíma gat ég eiginlega ekki ímyndað mér neitt meira óspennandi en að vinna slíka vinnu og hvað þá ef það væri ekki á eigin forsendum. Það hefur alltaf verið ákveðinn frumkvöðull í mér sem hefur reyndar líka leitt mig í misgáfuleg verkefni inn á milli. Ég þrífst þess að hafa krefjandi verkefni í gangi og geta haft áhrif á framgang mála. Því mætti mögulega segja að draumarnir hafi ræst, að minnsta kosti að hluta til.

Óreglulegur vinnutími og slíkt truflar mig ekki, eiginlega þvert á móti og ég spái ekkert í vinnutíma mínum almennt. Hef bara svo gaman af þessu öllu. Annars er ég í draumastarfi marga barna og unglinga enda snýst það oft um að bragða á ýmiskonar pizzum. Líklega fleiri en börn sem myndu vilja hafa það í starfslýsingunni.“

Magnús segist hæfilega óskipulagður og hefur lengi verið að reyna að færa sig úr því að nota minnisbækur yfir í að halda utan um verkefni stafrænt. Almennt segist hann einfaldlega reyna að hjóla strax í þau mál sem koma upp og leggja þá áherslu á að kunna að greina á milli þess sem er áríðandi og hvað er mikilvægt.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

,,Það besta við starf mitt er að það er sífellt eitthvað nýtt í gangi og það er engin breyting þar nú. Þessi tími árs litast oft af áætlanagerð og slíku en nú erum við einnig að undirbúa næsta ár í Skandinavíu þar sem við komum m.a að rekstri Domino‘s í Svíþjóð og undirbúum opnun í Danmörku á ný.

Annars er ég líka að vinna í því að keyra upp hlaupagleðina á ný hjá mér. 

Eftir nokkuð stöðugt hlaupaprógramm síðustu ár og hafa meðal annars lokið 53km í Hengli 2022 þá upplifði mikinn leiða á hlaupum í sumar og átti moment þar sem ég gafst upp í miðju hlaupi hjá Olís við Gullinbrú þar sem ég keypti pylsu, coke og súkkulaði áður en ég hringdi og lét eiginkonuna sækja mig með orðunum „ég er hættur að hlaupa. 

Það er nú ekki svo slæmt og ég er kominn ágætlega af stað eftir góða pásu. Með hlaupunum reyni ég að mæta reglulega í Ultraform, sem er frábær stöð sem staðsett í hverfinu okkar. Á einmitt erfitt með að hreyfa mig núna af harðsperrum eftir síðasta tima.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég er segi að ég sé hæfilega óskipulagður en þó þannig að mér líður ekki illa með það. Ég á bunka að hálf notuðum minnisbókum en hef verið að færa mig í að skipuleggja mig á stafrænan máta. Hef ekki alveg leið sem hentar en held þó áfram að prófa allskonar forrit og græjur í leit að hinni fullkomnu lausn.

Almennt reyni að hjóla strax í mál sem koma upp en þó án þess að það fresti öðru um of. Það hjálpar að ég á ágætt með að greina á milli hvað er áríðandi og hvað er mikilvægt, eitthvað sem fer ekki alltaf saman. 

Ein regla sem ég reyni að halda mig við er að svara innan dagsins öllum tölvupósti sem þarfnast svars. Mér finnst því ágætt að renna yfir innhólfið fyrir svefninn og tryggja að allt sé eins og það á að vera.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Of seint, það er almenna þemað. Við hjónin tökum oft þáttaraðir og hámhorfum á þær sem á það til enda í áhorfi full langt fram á kvöld. Yfirleitt erum við að horfa á hágæða efni eins og Succession eða eitthvað gott HBO efni en ég hef líka verið dreginn inn í Love Island áhorf reglulega og viðurkenni að ég get nefnt alla helstu leikendur þar eftir all nokkur síðkvöld með þann ágæta þátt á skjánum.

Þess utan nýt ég þess að grúska og á það til að gleyma mér á YouTube vel fram yfir miðnætti þegar allir eru sofnaðir.

Efni tengt matreiðslu og ýmiskonar tækni eru þar ofarlega á lista sem rímar ágætlega við áherslur í mínu starfi. Ég er yfirkokkur heimilisins og elska að spá og spekúlera í matreiðslu og ekki síður að elda nýjar og spennandi uppskriftir, serstaklega um helgar eftir undirbúning og hugmyndavinnu dagana á undan. Oft er það líka þannig að um eða eftir miðnætti er einn af fáum tímum sólarhringsins þar sem ekkert annað þarfnast athygli manns og því finnst mér tilvalið að nýta þann tíma til að sinna mínum helstu áhugamálum.

Það skiptist svo á milli Seinfeld og The Office að leiða mig inn í draumaheiminn enda varla hægt að enda daginn betur.“


Tengdar fréttir

„Ég var eiginlega ástfangin af John Taylor í Duran Duran“

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, er kölluð „Just Do It,“ innan Orkuveitu samstæðunnar. Sem unglingur var hún ástfangin af John Taylor, tók Skonrokk upp á VHS og hámhorfði aftur og aftur á myndbönd Duran Duran.

Vísir, Heimildin, Mogginn og Viðskiptablaðið undir góðri tónlist

Það fyrsta sem Tinni Sveinsson framkvæmdastjóri LóuLóu gerir á morgnana er að setja góða tónlist á fóninn og skanna síðan alla helstu miðlana. Jafn tæknivæddur og Tinni er, skrifar hann lista á gamla mátann til að halda utan um verkefnin sín.

Erfitt að setja „like“ á myndir af fólki í ræktinni klukkan sex

B týpan Ásta Dís Óladóttir prófessor, stjórnarkona, formaður Jafnvægisvogar FKA og fleira, segist alveg eiga það til að hugleiða það í korter tuttugu mínútur á morgnana hvort nú sé tími til að fara á fætur, áður en hún síðan fer fram úr. 

Konan sér oft um hlátursköstin rétt fyrir svefninn

Teitur H. Syen, framkvæmdastjóri mannauðs og gæða hjá Kynnisferðum, sem starfar undir vörumerkinu Icelandia, segir orkustuðullinn sinn bestan á morganana. Teitur fékk hláturskast í vinnunni um daginn, en segir konuna sína líka lunkna við að fá hann til að hlæja rétt fyrir svefninn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×