Handbolti

Skyldusigrar framundan hjá íslenska liðinu: „Erum vanar að vera litla liðið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir kveðst spennt fyrir komandi leikjum með íslenska landsliðinu.
Sandra Erlingsdóttir kveðst spennt fyrir komandi leikjum með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Sandra Erlingsdóttir, landsliðskona í handbolta, segir íslenska liðið eiga spennandi verkefni fyrir höndum er liðið mætir Lúxemborg og Færeyjum í undankeppni EM 2024.

„Það er alltaf jafn skemmtilegt að hitta hópinn og sérstaklega núna þegar það er mikið af spennandi verkefnum framundan. Þá er þetta mjög skemmtilegt,“ sagði Sandra á æfingu íslenska liðsins í dag.

Íslenska liðið mætir Lúxemborg og Færeyjum í forkeppni EM í þessum landsleikjaglugga, en Ísland tekur á móti Lúxemborg að Ásvöllum annað kvöld.

„Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Spennandi og nýtt verkefni. Við erum vanar kannski að vera litla liðið þannig að þetta er aðeins öðruvísi verkefni fyrir okkur núna sem er bara skemmtileg áskorun.“

Þá segir Sandra að hægt sé að horfa á leikina tvo gegn Lúxemborg og Færeyjum sem skyldusigra.

„Já það er alveg hægt að segja það. Þetta verða auðvitað hörkuleikir og allt svoleiðis, en við stefnum að sjálfsögðu á sigur,“ sagði Sandra, en bætti einnig við að liðið myndi nýta sér þessa tvo leiki sem undirbúning fyrir HM sem hefst í næsta mánuði.

„Já algjörlega. Það er ótrúlega gott að fá þessa leiki núna og þetta eruótrúlega mikilvægir leikir þar sem lokamarkmiðið okkar er EM 2024 og þá þurfum við að vinna þessa leiki,“ sagði Sandra að lokum.

Klippa: Sandra fyrir leiki Íslands gegn Lúxemborg og Færeyjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×