Viðskipti innlent

Á­fram enginn loðnu­kvóti

Árni Sæberg skrifar
Niðurstaðan byggir meðal annars á rannsókn sem framkvæmd var á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni.
Niðurstaðan byggir meðal annars á rannsókn sem framkvæmd var á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni. Vísir/Vilhelm

Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar fiskveiðiárið 2023/2024.

Í tilkynningu þess efnis á vef Hafrannsóknastofnunar segir að þessi ráðgjöf sé samhljóma fyrirliggjandi upphafsráðgjöf sem byggði á mælingum á ungloðnu haustið 2022. Ráðgjöfin verði endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í byrjun árs 2024.

Ráðgjöfin byggi á niðurstöðum bergmálsmælinga á loðnustofninum á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Tarajoq á tímabilinu 23. ágúst til 23. september.

Leiðangurinn sé talinn hafa náð yfir útbreiðslusvæði stofnsins. Hafís hafi takmarkað yfirferð nyrst á rannsóknasvæðinu, en ekki sé talið líklegt að loðna hafi verið á svæðinu sem var sleppt. Loðnan hafi verið nokkuð jafndreifð á svæðinu og mæling hennar haft fremur lágan breytistuðul.

Heildarmagn loðnu hafi mælst tæp 697 þúsund tonn og þar af var stærð veiðistofns metin 325 þúsund tonn. Magn ókynþroska í fjölda hafi verið um 48 milljarðar en samkvæmt samþykktri aflareglu þurfi yfir fimmtíu milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fiskveiðiársins 2024/2025.

Gögn um niðurstöður ungloðnumælinganna verði lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) sem muni veita ráð um upphafsaflamark vertíðarinnar 2024/2025.


Tengdar fréttir

Auka loðnukvótann um tæplega sextíu þúsund tonn

Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuafli á vertíðinni 2022-2023 verði ekki meiri en 275.705 tonn, sem þýðir 57.300 tonna hækkun ráðgjafar frá þeirri sem gefin var út 4. október 2022. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×