Innherji

Seðlabankinn „staldrar við“ og á­kveður ó­vænt að halda vöxtum ó­breyttum

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, sem fer jafnframt fyrir peningastefnunefnd bankans, en ákvörðun um að halda vöxtum óbreyttum var þvert gegn spám flestra greinenda og markaðsaðila.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, sem fer jafnframt fyrir peningastefnunefnd bankans, en ákvörðun um að halda vöxtum óbreyttum var þvert gegn spám flestra greinenda og markaðsaðila. Vísir/Vilhelm

Eftir að hafa hækkað meginvexti Seðlabankans fjórtán sinnum í röð hefur peningastefnunefnd ákveðið, sem er á skjön við spár nánast allra greinenda og markaðsaðila, að halda vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent. Vísar hún til þess að óvissa sé um framvindu efnahagsmála og hvort aðhaldið sé nægjanlegt – raunvextir hafi hækkað nokkuð á árinu – og því vilji nefndin „staldra við.“

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans, sem birtist núna í morgun, kemur fram að á heildina litið hafi þróun efnahagsmála verið í samræmi við mat hennar frá síðasta fundi í lok ágúst. 

„Verðbólga hefur aukist á ný og mældist 8 prósent í september. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig en undirliggjandi verðbólga hefur hjaðnað lítillega. Vísbendingar eru um að heldur hafi dregið úr tíðni verðhækkana og að þær séu ekki á eins breiðum grunni og áður. Þótt verðbólguvæntingar séu áfram of háar hafa þær lækkað á suma mælikvarða,“ segir peningastefnunefnd.

Þar vísar nefndin væntanlega einkum til nýrra hagtalna sem birtust síðasta föstudag, sem Innherji greindi frá, en þær sýndu að verðbólguvæntingar fyrirtækja og heimila, bæði til skamms og lengri tíma, hefðu lækkað talsvert.

Raunvextir bankans hafa hækkað það sem af er ári og áhrif vaxtahækkana bankans eru farin að koma fram í meira mæli.

Til eins árs námu verðbólguvæntingar markaðsaðila og fyrirtækja, svo dæmi sé tekið, 5,6 prósent og 6 prósent um síðustu mánaðarmót – eftir að hafa mælst 6,3, prósent og 7,5 prósent um mitt árið. Þá höfðu einnig verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja til fimm ára lækkað um hundrað punkta og stóðu í 5 og 4 prósent í byrjun þessa mánaðar. Verðbólguvæntingar markaðsaðila – bæði til fimm ára og tíu ára – höfðu hins vegar nánast staðið í stað á undanförnum þremur mánuðum.

Ákvörðun peningastefnunefndar um að halda vöxtum óbreyttum kemur hins vegar á óvart en samkvæmt könnun Innherja á meðal tuttugu og þriggja greinenda á fjármálamarkaði, sjóðstjóra, hagfræðinga og stjórnenda lífeyrissjóða, voru aðeins þrír sem reiknuðu með þeirri ákvörðun. Aðrir töldu víst að vextirnir yrðu hækkaðir um 25 eða 50 punkta.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er bent á að hagvöxtur á fyrri hluta ársins hafi verið 5,8 prósent en miðað við meira en 7 prósent á sama tíma fyrir ári. Nokkuð hafi því hægt á vexti efnahagsumsvifa og vísbendingar um að hægt hafi enn frekar á eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins. Aftur á móti sé enn nokkur spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild.

„Raunvextir bankans hafa hins vegar hækkað það sem af er ári og áhrif vaxtahækkana bankans eru farin að koma fram í meira mæli,“ segir nefndin, og bætir við í lokin:

„Á þessum tímapunkti er nokkur óvissa um efnahagsframvinduna og hvort núverandi taumhald sé nægjanlegt. Nefndin hefur því ákveðið að staldra við en á næsta fundi mun liggja fyrir ný þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Þátttakendur í könnun Innherja, sem fór fram í lok síðustu viku, sem spáðu óbreyttum vöxtum var nefnt að þrátt fyrir þrálátar verðbólguvæntingar vilji nefndin líta til þess að sjá áhrif fyrri hækkana koma fram og þá séu merki um að hægja sé verulega á, meðal annars þegar litið er til einkaneyslunnar.

Þá sagði annar, sem taldi að vextirnir héldust óbreyttir í 9,25 prósentum, að þótt verðbólgan væri að ganga hægar niður en síðasta verðbólguspá Seðlabankans gerði ráð fyrir þá sé það samt innan skekkjumarka. Það gefi Seðlabankanum „andrými“ til að láta vaxtahækkanirnar núna bíta á hagkerfið auk þess sem það sjást fleiri merki um að hægja sé á ýmsu þótt atvinnuleysi mælist enn frekar lágt. 

„Horft á skuldabréfamarkaðinn þá hefur hann tekið miklum breytingum í verðlagningu á vaxtastiginu frá því í byrjun árs og sumar og er núna farinn að hlusta á Seðlabankann og hefur endurstillt sig í samræmi við vaxtastefnuna. Má til dæmis sjá það einna helst í hækkun raunvaxta en ávöxtunarkrafa stysta ríkistryggða flokksins, RIKS26, hefur hækkað um 180 punkta á árinu og er núna um 3,8 prósent og endurspeglar vel núna það raunvaxtaaðhald sem Seðlabankinn vill sjá,“ sagði í rökstuðningi fyrir óbreyttum vöxtum.


Tengdar fréttir

Flest „lagst gegn“ bankanum frá síðustu á­kvörðun og spáir 50 punkta hækkun

Á þeim ríflega mánuði sem er liðin frá því að peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði síðast vextina í 9,25 prósent þá hafa skammtímavísbendingarnar „heilt yfir lagst gegn“ bankanum, hvort sem litið er til verðbólgu, verðbólguvæntingar eða þróunar efnahagsmál, að mati greiningar Arion banka, sem spáir þess vegna að nefndin muni hækka vextina á ný um 50 punkta. Aðhald peningastefnunnar sé „enn of lítið“ og fari verðbólguvæntingar ekki að hjaðna á næstunni er sennilegt að vextirnir muni brjóta tíu prósenta múrinn áður en árið er liðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×