Viðskipti innlent

Spá 0,5 prósentu­stiga stýri­vaxta­hækkun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. Vísir/Vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,5 prósentustig í næstu viku. Hækkunin yrði sú fimmtánda í röð og meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, færu úr 9,25% í 9,75%.

Þetta kemur fram á vef Landsbankans. Peningastefnunefnd hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig eftir síðasta fund, þann 23. ágúst. Þá voru ýmsir hagvísar farnir að benda í rétta átt. Verðbólgan hafði farið hjaðnandi, úr 8,9% í júní í 7,6% í júlí og skýr merki komið fram um að peningalegt aðhald væri loks farið að bera árangur víðar en á íbúðamarkaði.

Íbúðaverð hafði lækkað nokkuð hressilega tvo mánuði í röð og árshækkun vísitölu íbúðaverðs fór niður í 0,8% í júlí, lægsta gildi frá því í janúar 2011, segir hagfræðideild Landsbankans.

„Verðbólguvæntingar höfðu aftur á móti ekki gefið jafnmikið eftir og peningastefnunefnd hefði viljað, þrátt fyrir 1,25 prósentastiga stýrivaxtahækkun í maí. Vaxtahækkanir voru heldur ekki farnar að segja greinilega til sín á vinnumarkaði þar sem enn mældist skortur á vinnuafli og atvinnuleysi undir þremur prósentum.“

Hagfræðideild segir nefndina hafa veitt litla sem enga framsýna leiðsögn í síðustu yfirlýsingu, aðeins tekið fram að framhaldið myndi „ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga“.

Síðan hafi verðbólgan hækkað, sé nú 0,4 prósentustigum hærri, verðbólguvæntingar virðast hafa versnað og þrátt fyrir að verulega hafi hægt á vexti einkaneyslu mældist hagvöxtur 4,5% á öðrum ársfjórðungi.

Peningastefnunefnd kemur næst saman miðvikudaginn 4. október og greinir frá stýrivöxtum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×