Viðskipti innlent

Móður­fé­lag Arnar­lax mætt First North-markaðinn

Atli Ísleifsson skrifar
Bjørn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon, hringdi inn fyrstu viðskipti á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn að viðstöddu starfsfólki Arnarlax og íbúum á Bíldudal í morgun.
Bjørn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon, hringdi inn fyrstu viðskipti á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn að viðstöddu starfsfólki Arnarlax og íbúum á Bíldudal í morgun. Nasdaq Iceland

Icelandic Salmon AS, móðurfélag laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, var skráð á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi. Félagið verður með auðkennið ISLAX.

Í tilkynninu frá Nasdaq segir að félagið tilheyri Nauðsynjavörugeiranum (e. Consumer Staples) og sé tuttugasta félagið sem tekið sé til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár.

„Arnarlax er stærsti framleiðandi á eldislaxi á Íslandi. Félagið er með í rekstri átta eldissvæði í þremur fjörðum á sunnanverðum Vestfjörðum undir nafni Arnarlax ehf., sem hefur verið með höfuðstöðvar á Bíldudal frá stofnun árið 2010. Arnarlax hefur verið í fararbroddi í fiskeldi á Íslandi um árabil, en starfsemi félagsins er að fullu samþætt með eigin seiðastöðvar, sjókvíar, vinnslu og sölu. Félagið hefur sjálfbærni að leiðarljósi í öllu sínu starfi þar sem markmiðið er að framleiða hágæðavöru í sátt við umhverfið, en félagið starfar með nágrannabændum og samfélagi, sveitarfélögum og eftirlitsaðilum að því að bæta rekstur og stöðugt minnka áhrif starfseminnar á umhverfi,“ segir í tilkynningunni.

Nasdaq Iceland

Í tilkynningunni er haft eftir Bjørn Hembre, forstjóra Icelandic Salmon, að félagið sé stolt af því að vera komið á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi. „Starfsemi Arnarlax er vel kunnug Íslendingum sem eru þekktir fyrir ást sína á sjávarfangi og sjálfbærri nýtingu þess. Þessi skráning er mikilvægur liður í okkar vegverð til frekari vaxtar og við erum þakklát fyrir þann áhuga sem við höfum fundið fyrir á meðal íslenskra fjárfesta. Það er því okkur mikil ánægja að bjóða íslenska fjárfesta, stóra sem smáa velkomna í félagið hér í heimalandi Arnarlax og við hlökkum til að starfa með þeim fram veginn,“ segir Bjørn Hembre.

Þá býður Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland félagið innilega velkomið á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn. „Icelandic Salmon er fyrsta félagið í fiskeldi á íslenska hlutabréfamarkaðnum, sem eykur breiddina á honum og gefur fjárfestum tækifæri til að fjárfesta í mjög ört vaxandi atvinnugrein. Skráning á íslenska markaðinn mun auka sýnileika félagsins og hjálpa til við að efla þekkingu á fiskeldi á Íslandi. Við hlökkum til að styðja við vegferð Icelandic Salmon hér á landi,“ segir Magnús.

Nasdaq Iceland




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×