Innlent

Börnin virðist ekki vita hvað „græn­metis­æta“ þýðir

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gréta Jakobsdóttir er lektor í menntavísindum við Háskóla Íslands.
Gréta Jakobsdóttir er lektor í menntavísindum við Háskóla Íslands. Vísir/Steingrímur Dúi

Tuttugu prósent nemenda í sjötta bekk grunnskóla segjast vera grænmetisætur. Einungis lítill hluti þeirra borðar í raun og veru ekkert kjöt og virðast ungmenni almennt ekki þekkja skilgreiningar þess að vera grænmetisæta.

Niðurstöður könnunar um matarumhverfi grunnskólabarna verður kynnt á Menntakviku Háskóla Íslands á morgun. Tóku tæplega tvö þúsund börn þátt í könnuninni sem beint var til nemenda í 6., 8. og 10. bekk.

Niðurstöðurnar sýna að um tuttugu prósent barna í sjötta bekk segjast vera grænmetisætur. Fer þeim fjölda fækkandi er börnin eldast og segjast þrettán prósent nemenda í áttunda bekk vera grænmetisætur. Fer talan svo niður í tíu prósent í tíunda bekk.

Í könnuninni voru nemendur einnig spurðir hversu oft þeir borðuðu kjöt í viku. Þó nokkur fjöldi þeirra sem segjast vera grænmetisætur borðar kjöt nokkrum sinnum í viku. Því virðist vera að börn í grunnskóla séu með mismunandi skilgreiningu á því hvað sé að vera grænmetisæta.

Gréta Jakobsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, sem sá um rannsóknina segir það til að mynda ekki standast skoðun að fimmtungur sjöttu bekkinga séu grænmetisætur.

„Þá getum maður spurt, eru börn í 6. bekk, vita þau hvað þetta orð þýðir. Það sem maður getur kannski túlkað að ég borða grænmeti, en ég borða rosalega margt annað líka. Grænmetisæta getur þýtt rosalega mismunandi fyrir fólk. Er það að ég borða ekki kjöt, ég borða ekki fisk. Kannski er það pínu loðið fyrir suma hvað það þýðir,“ segir Gréta. 

Flestir telja að sá sem aldrei borðar kjöt eða fisk sé grænmætisæta. Gæti verið að þeir sem fá sér kjöt örfáum sinnum vilji flokka sig sem grænmetisætur.

„Þess vegna verður maður að fara hóflega í að túlka niðurstöðurnar rosalega hart. Velta því frekar fyrir sér hvernig börnin túlka spurningar í spurningalistum og hvernig þau túlka orðin,“ segir Gréta.

Þannig þetta þýðir ekkert endilega að fimmtungur barna í sjötta bekk séu grænmetisætur?

„Nei, kannski frekar bara að þau borði grænmeti,“ segir Gréta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×