Viðskipti innlent

Skel kaupir tugi í­búða fyrir fleiri milljarða

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er forstjóri SKEL hf.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er forstjóri SKEL hf. Vísir

Fjárfestingafélagið SKEL hf. hefur fest kaup á 55 íbúðum við Stefnisvog 2 í Reykjavík fyrir rétt tæpa fimm milljarða króna. Samhliða kaupunum gerði félagið samning um kauprétt að 35 íbúðum við Stefnisvog 12. Fjárfestingafélagið stefnir að því að setja íbúðirnar í útleigu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst kauphöll eftir lokun markaða í dag. 

Íbúðirnar 55 eru samtals 5.905 fermetrar en gert er ráð fyrir því að þær verði afhentar í lok árs. Ákveði SKEL að nýta sér kaupréttinn samkvæmt samkomulaginu getur félagið keypt 35 íbúðir til viðbótar, sem yrðu afhentar í lok árs 2024. Uppgefið verð samkvæmt kaupréttarsamningnum eru rúmir 3,2 milljarðar króna.

Hluti kaupverðs verður greiddur með afhendingu hlutafjár og hluthafalána í Reir þróun ehf. á bókfærðu verði. Bókfært virði hlutafjár og fjárhæð hluthafalána SKEL í einkahlutafélaginu í lok júní nam rúmum 1,7 milljörðum króna. Að öðru leyti verður kaupverðið fjármagnað með bankaláni og reiðufé. Komi til nýtingar kaupréttarins verður SKEL búið að afhenda alla hluti félagsins í Reir þróun.

„SKEL hefur reynslu og þekkingu á fasteignamarkaði, en 17% eigna félagsins eru í fasteignum eða félögum sem reka og þróa fasteignir. SKEL telur að gerjun sé framundan á fasteignamarkaði, m.a. vegna breytinga hjá stórum leigufélögum. Framboð hefur ekki svarað eftirspurn á undanförnum árum og eftirspurn vex ár frá ári. Íbúðirnar við Stefnisvog 2 verða settar í langtímaleigu,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL, í fyrrgreindri tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×