Viðskipti innlent

Hopp hlaut Vaxtar­sprotann með 970 prósenta vöxt í veltu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Frá afhendingu Vaxtarsprotans í Grasagarðinum í Laugardal. Frá vinstri: Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI, Ægir Þorsteinsson meðstofnandi Hopp, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Hopp, Hildur Hjaltalín Jónsdóttir rekstrarstjóri Hopp, Eiríkur Nilson meðstofnandi Hopp og Árni Sigurjónsson formaður SI.
Frá afhendingu Vaxtarsprotans í Grasagarðinum í Laugardal. Frá vinstri: Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI, Ægir Þorsteinsson meðstofnandi Hopp, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Hopp, Hildur Hjaltalín Jónsdóttir rekstrarstjóri Hopp, Eiríkur Nilson meðstofnandi Hopp og Árni Sigurjónsson formaður SI. Vísir/Aðsend

Hopp hefur hlotið viðurkenninguna Vaxtarsproti ársins, fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem afhenti Vaxtarsprotann í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal í gær.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Í tilkynningu um málið kemur fram að tilgangur verkefnisins sé að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti.

Starfsmenn Hopp eru þrettán talsins. Velta fyrirtækisins jókst um 970 prósent á milli áranna 2021 og 2022, en þá fór veltan úr 72 milljónum króna í 770 milljónir króna.

Hopp er sprotafyrirtæki sem þróar hugbúnað sem gerir fólki kleift að opna Hopp útibú með sérleyfi á sínum heimaslóðum. Í dag eru virk sérleyfi Hopp í 56 bæjum í 12 löndum. Hopp á engar rafskútur en sjálfstæð fyrirtæki eru rekin undir heiti Hopp í hverju bæjarfélagi. Fyrirtækin gera samninga við Hopp um rekstur á hugbúnaði og þjónustu vegna hans. Hopp er nú þegar skráð vörumerki í fjölmörgum löndum og meirihluti tekna fyrirtækisins eru útflutningstekjur.

Fyrirtækin, Dohop og Lauf Forks, hlutu einnig viðurkenningar í gær.

Í dómnefnd voru Katrín Sif Oddgeirsdóttir fyrir Háskólann í Reykjavík, Svandís Unnur Sigurðardóttir fyrir Rannís, Kolbrún Hrafnkelsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Nanna Elísa Jakobsdóttir fyrir Samtök iðnaðarins





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×