Viðskipti innlent

Leggja til leiðir til að auka samkeppni

Samúel Karl Ólason skrifar
Samskip
Samskip Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlit Íslands leggur til að stjórnvöld grípi til aðgerða til að efla samkeppni á flutningamarkaði með ýmsum aðgerðum. Er það sagt vera mikilvægt og þá meðal annars vegna hækkana á vöruverði síðustu mánuði.

Þetta kemur fram í áliti sem eftirlitið gaf út í dag og snýr að leiðum til að draga úr samkeppnishindrunum og flutningamarkaði, skapa aðhald og efla samkeppni. Álitið má finna hér.

Samkeppniseftirlitið sektaði nýverið Samskip um 4,2 milljarða króna fyrir ólöglegt samráð við Eimskip og fyrir samkeppnislagabrot sem metinu voru alvarleg. Eimskip gerði sátt við eftirlitið árið 2021 og greiddi 1,5 milljarða í sekt. Fyrirtækin eru sögð hafa haldið verði háu með samráðinu.

Félag Atvinnurekenda gaf út tilkynningu í dag um að forsvarsmenn fyrirtækja ættu að kanna hvort þeir fái tjón bætt frá skipafélögunum.

Sjá einnig: Telja skipafélögin hafa valdið stórfelldu tjóni með samráði

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að tillögur stofnunarinnar feli meðal annars í sér að aðgengi nýrra og minni keppinauta í sjóflutningum að fullnægjandi hafnaraðstoð og skipaafgreiðslu hér á landi verði tryggt.

Einnig verði skapaðar aðstæður fyrir aukna samkeppni í landflutningum og hugað verði að leiðum til að skapa aukið aðhald gagnvart nýrri eða sértækri gjaldtöku á flutningamörkuðum.

Tillögum þessum er beint til innviðaráðherra, Faxaflóahafna, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins er því einnig sérstaklega beint til viðskiptavina Samskipa og Eimskips að eðlilegt sé að þeir kalli í hverju tilviki eftir skýringum á fjárhæð einstakra gjalda sem innheimt eru við samningagerð.


Tengdar fréttir

Segir milljarða sekt koma til vegna sam­særis­kenninga

Samskip ætla sér að kæra rúmlega fjögurra milljarða króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á félagið í gær. Lögmaður Samskipa segir félagið vera sektað fyrir samsæriskenningar sem enginn fótur sé fyrir. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×