Viðskipti innlent

Sekta Sam­skip um 4,2 milljarða vegna sam­ráðs

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Samskip segir um að ræða alvarlega atlögu að félaginu.
Samskip segir um að ræða alvarlega atlögu að félaginu. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Samskip um 4,2 milljarða og telur fyrir­tækið hafa með al­var­legum hætti brotið gegn sam­keppnis­lögum með ó­lög­mætu samraði við Eim­skip. Sam­skip hafnar niður­stöðu eftir­litsins.

Í til­kynningu frá Sam­keppnis­eftir­litinu segir að Sam­skip hafi auk þess við rann­sókn málsins brotið gegn 19. grein sam­keppnis­laga með rangri, villandi og ó­full­nægjandi upp­lýsinga­gjöf og gagna­af­hendingu.

Sam­keppnis­eftir­litið leggur fyrir Sam­skip að grípa til til­tekinna að­gerða í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og efla sam­keppni.

„Sam­ráðið í heild sinni var til þess fallið að gera fyrir­tækjunum kleift að draga með af­drifa­ríkum hætti úr sam­keppni og hækka eða halda uppi verði gagn­vart við­skipta­vinum fyrir­tækjanna, til dæmis með hækkun við endur­nýjun samninga, hækkun á gjald­skrám og þjónustu­gjöldum, upp­töku nýrra gjalda, lækkun af­slátta og svo fram­vegis,“ segir í á­liti Sam­keppnis­eftir­litsins.

„Sam­eigin­leg yfir­burða­staða Eim­skips og Sam­skipa á markaðnum, sam­skipti stjórn­enda fyrir­tækjanna og aðrir þættir í sam­ráði fyrir­tækjanna sköpuðu kjör­að­stæður fyrir fyrir­tækin til að ná árangri í sam­ráðinu og hagnast á kostnað við­skipta­vina og sam­fé­lagsins alls.“

For­dæma niður­stöðuna

Sam­skip hafna niður­stöðu rann­sóknar Sam­keppnis­eftir­litsins á ætluðu sam­ráði Eim­skips og Sam­skipa á árunum 2006 til 2013, að því er segir í til­kynningu frá fyrir­tækinu.

Þar segir að á­lyktanir um víð­tækt og þaul­skipu­lagt sam­ráð séu með öllu til­hæfu­lausar og úr tengslum við gögn og stað­reyndir. Sam­skip for­dæma vinnu­brögð Sam­keppnis­eftir­litsins við rann­sóknina og hyggjast fá niður­stöðunni hnekkt.

Starf­semi Sam­skipa hafi á­vallt grund­vallast á sam­keppni á öllum mörkuðum og fé­lagið leiðandi í að skapa virka sam­keppni og hag­kvæmar lausnir í flutningum og tengdri þjónustu. Niður­staða Sam­keppnis­eftir­litsin­ser sögð ein­kennast af hálf­sann­leika, villandi fram­setningu og rang­færslum.

Rann­sókn eftir­litsins hafi staðið yfir síðan frá 2010 og ráðist í hús­leitir hjá fyrir­tækjunum.

„Saman­lagt voru and­mæla­skjölin á þriðja þúsund blað­síður og fylgi­skjöl skiptu tugum þúsunda. Sam­skip skiluðu ítar­legum efnis­legum at­huga­semdum við and­mæla­skjölin og sýndu fram á að frum­niður­stöður Sam­keppnis­eftir­litsins væru í grund­vallar­at­riðum rangar. Niður­staða Sam­keppnis­eftir­litsins og á­kvörðun um sektar­greiðslur lá svo fyrir nú 31. ágúst.“

Eimskip hafi talið farsælast að ljúka málinu með sátt

Fyrir liggi að Eimskip hafi lokið málinu með sátt við Samkeppniseftirlitið í júní 2021, þrátt fyrir að hafa áður haft uppi hörð andmæli gegn málsmeðferð og efnislegum ályktunum Samkeppniseftirlitsins. Samskip segjast telja ljóst að ákvörðun Eimskips hafi ekki byggt á efni málsins heldur mati nýrra stjórnenda félagsins á því hvað væri farsælast fyrir rekstur þess næstu árin.

„Umhugsunarefni er ef ráðandi fyrirtæki á markaði getur með þessum hætti notað digra sjóði til að kaupa það frá frekari málsmeðferð. Þá er alvarlegur hlutur ef löng og þung málsmeðferð og miklar valdheimildir eftirlitsstjórnvalda geta orðið til þess að fyrirtæki kjósi heldur að játa sök og greiða sekt, án þess að efni séu til, en að leiða hið rétta og sanna í ljós fyrir æðra stjórnvaldi eða dómstólum.“

Þá segir Samskip að vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins í málinu séu vonbrigði. Málsmeðferðin hafi verið þung og haft lamandi áhrif á starfsemi og starfsfólk Samskipa.

„Stofnunin hefur farið offari við rannsókn málsins og gagnaöflun og hefur nú komist að niðurstöðu sem ekki er í nokkrum tengslum við raunveruleikann. Settar eru fram kenningar og ályktanir um brot án þess að beinum sönnunargögnum sé til að dreifa. Kenningum hefur verið fundin stoð með því að fara beinlínis rangt með efni gagna eða staðreyndir máls eða með augljósum rangtúlkunum. Samskip munu ekki una niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og mun félagið leita allra úrræða sem því eru tæk að lögum til að fá henni hnekkt.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×