Innherji

Nýr bankastjóri Kviku kaupir í félaginu fyrir 34 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Ármann Þorvaldsson var ráðinn forstjóri Kviku fyrir rétt rúmlega viku.
Ármann Þorvaldsson var ráðinn forstjóri Kviku fyrir rétt rúmlega viku.

Ármann Þorvaldsson, sem var ráðinn bankastjóri Kviku í síðustu viku, hefur keypt bréf í bankanum fyrir jafnvirði tæplega 34 milljónir króna. Hlutabréfaverð Kviku hefur verið undir þrýstingi til lækkunar um langt skeið og er niður um nærri 20 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Í flöggun til Kauphallarinnar eftir lokun markaða kemur fram að Ármann hafi keypt samanlagt tvær milljónir hluta að nafnvirði á genginu 16,95 krónur á hlut í viðskiptum á markaði fyrr í dag í gegnum eignarhaldsfélagið BMA. Samtals var um 160 milljóna velta með bréf félagsins í viðskiptum í dag og stóð gengi þeirra í stað.

Kaup Ármanns í bankanum koma átta dögum eftir að tilkynnt var um að stjórn Kviku hefði ráðið hann sem forstjóra félagsins í stað Marinós Örn Tryggvasonar, sem átti frumkvæði að því að óska eftir starfslokum, en hann hafði verið bankastjóri frá árinu 2019. Marinó, sem var áður aðstoðarforstjóri, hafði þá stólaskipti við Ármann sem gerðist aðstoðarforstjóri þangað til hann lét af því starfi í árslok 2022 – og fór að sinna afmörkuðum verkefnum fyrir Kviku auk þess að vera stjórnarformaður dótturfélögum þess í Bretlandi.

Markaðsvirði Kviku er núna rétt um 81 milljarður króna en hlutabréfaverð bankans hefur – fyrir utan nokkra viðskiptadaga fyrr á þessu ári – ekki verið lægra frá því á síðasta degi ársins 2020. Það sem af er þessu ári er gengi bréfa bankans niður um 10,5 prósent, mun meira borið saman við Arion banka og Íslandsbanka. 

Síðustu uppgjör Kviku hafa verið undir væntingum fjárfesta og í lok júní var viðræðum um mögulega sameiningu bankans við Íslandsbanka slitið. Í bréfi sem Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða sem er þriðji stærsti hluthafi Kviku með nærri sjö prósenta hlut, sendi á hluthafa fjárfestingafélagsins í lok júlí benti hann meðal annars á að bæði á meðan viðræður stóðu yfir um mögulega sameiningu við Íslandsbanka, og eins eftir að þeim var slitið, þá hafi gengisþróun Kviku haldið áfram að valda vonbrigðum.

„Virðist vantrú fjárfesta á fyrirætlunum forsvarsmanna félagsins vera mikil. Þrátt fyrir að bankinn hafi skilað þokkalegri afkomu í ljósi erfiðra markaðsaðstæðna endurspeglar markaðsvirði hans ekki þá framsýnu leiðsögn um vænta afkomu sem bankinn birtir reglulega. Þetta gerir það að verkum að samanlagt verðmæti einstaka eininga bankans er að okkar mati nú mun hærra en núverandi markaðsvirði bankans. Við það verður ekki búið til langs tíma,“ skrifaði hann til hluthafa Stoða, eins og Innherji hefur fjallað áður um.

Þá vísaði Jón einnig til þess að fjallað hefur verið um það í hlutabréfagreiningum, sem Innheri hefur sagt frá, að mikil verðmæti felist í tryggingafélaginu TM, Kviku eignastýringu og síðast en ekki síst bankastarfseminni sjálfri. „Það verður verkefni stjórnenda bankans að vinna með skynsamlegum hætti úr þeim verðmætum sem þeir eru með í höndunum og er það von okkar að allar leiðir verði skoðaður í þeim efnum,“ sagði forstjóri Stoða í hluthafabréfinu.

Á uppgjörsfundi Kviku fyrr í þessum mánuði var Marinó spurður út í frétt Innherja um þær skoðanir sem forstjóri Stoða hefði sett fram í bréfi til hluthafa fjárfestingafélagsins um Kviku og verðmæti bankans.

Marinó sagði að „töluverð umræða“ hefði skapast um það og hann „gerði engar athugasemdir“ við þau skrif forstjóra Stoða. Hann benti hins vegar á að ef „maður les fréttaflutninginn þá í sjálfu sér finnst mér Stoðamenn vera að fjalla um hið augljósa – þeir telja að miðað við rekstrarafkomu og verðmæti eigna í samstæðunni þá sé verðmæti félagsins lágt. Ég er persónulega ekkert ósammála því mati,“ sagði bankastjóri Kviku á fundinum.


Tengdar fréttir

Van­trú fjár­festa á fyrir­ætlunum stjórn­enda Kviku er mikil, segir for­stjóri Stoða

Einn stærsti hluthafi Kviku banka segir það hafa verið „vonbrigði“ að fallið var frá viðræðum um samruna við Íslandsbanka enda sé mikilvægt að ná fram meiri hagræðingu í rekstri íslenskra fjármálafyrirtækja, einkum þeirra smærri. Að mati Stoða er samanlagt virði einstaka eininga Kviku nú „mun hærra“ en markaðsvirði samstæðunnar og brýnir forstjóri fjárfestingafélagsins stjórnendur bankans til að „skoða allar leiðir“ hvernig megi vinna úr þeim verðmætum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×