Viðskipti innlent

Kæra dag­sektirnar og hyggjast ekki af­henda gögnin í bili

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Brim hefur kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála.
Brim hefur kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála. Vísir/vilhelm

Útgerðarfélagið Brim hf. hyggst ekki afhenda Samkeppniseftirlitinu gögn í tengslum við rannsókn á stjórnunar- og eignartengslum fyrirtækja í sjávarútvegi fyrr en áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur tekið málið fyrir.

Frá þessu greinir RÚV.

Vísir greindi frá því í gær að Samkeppniseftirlitið hefði ákveðið að beita Brim dagsektum þar sem félagið hefði ekki látið af hendi umbeðin gögn í tengslum við ofangreinda rannsókn. 

Dagsektirnar munu nema 3,5 milljónum króna og byrja að reiknast eftir tvær vikur.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir hins vegar í samtali við RÚV að það sé ekki ásættanlegt að matvælaráðherra geri samning um rannsókn við stjórnvald sem búi yfir umfangsmiklu rannsóknar- og sektarvaldi.

„Þar er matvælaráðherra að greiða Samkeppniseftirlitinu, sem er með rannsóknarheimildir, peningagreiðslur til að vinna fyrir sig og getur svo stýrt greiðslum til eftirlitsins, eftir því hvort þau voru ánægð með vinnu eftirlitsins eða ekki. Þetta finnst okkur óeðlileg vinnubrögð,“ segir Guðmundur.

„Eftirlitið segir að sjávarútvegurinn sé ekki undir rannsókn heldur að þeir séu að vinna fyrir matvælaráðuneytið um að gera skýrslu og fá peningagreiðslu fyrir. Það er það sem við erum ekki sátt við.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×