Neytendur

Kólnun á hús­næðis­markaði dragi verð­bólgu niður fyrir spár

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bergþóra Baldursdóttir er hagfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka.
Bergþóra Baldursdóttir er hagfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Hagfræðingur hjá Íslandsbanka segir að samdráttur í íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu geti orðið til þess að verðbólga hjaðni hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Þó megi búast við því að Seðlabankinn hækki stýrivexti í næsta mánuði. 

Í verðbólguspá Íslandsbanka, sem gefin var út í síðustu viku, var því spáð að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,2 prósent milli mánaða í júlí. Það myndi þýða að tólf mánaða verðbólga kæmi til með að hjaðna úr 8,9 prósentum í 7,8 prósent. Hagfræðingur hjá bankanum segir eina helstu ástæðu fyrir hjöðnunarspánni vera þá að á sama tíma í fyrra varð mikil verðbólguaukning.

„Þannig að mælingin í fyrra er að detta út úr spánni. Þannig að við gerum ráð fyrir töluverðri hjöðnun,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka.

Húsnæðisþátturinn létti róðurinn

Þrátt fyrir yfirvofandi hjöðnun sé verðbólgan engu að síður mjög mikil.

„En það sem er jákvætt í þessu eru til dæmis þessar tölur sem birtust í gær um íbúðamarkaðinn. Hann er að kólna mjög hratt aftur, og það getur haft áhrif á verðbólguna.“

Uppfærð vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var gefin út í gær, en hún lækkaði um 1,1 prósent á milli mánaða. Síðastliðið ár hefur hún hækkað um 2,7 prósent.

„Að sjá húsnæðisverð lækka á milli mánaða mun hjálpa til við hjöðnunina, og hún verður líklegast, eða gæti verið meiri en spár eru að gera ráð fyrir vegna þess að fasteignaverð er að lækka.“

Vaxtalækkanir ekki í kortunum

Spá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að verðbólga verði í kringum átta prósent næstu mánuði, en hjaðni ekki mikið meira fyrr en í lok árs.

„Verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent og við erum ennþá í kringum níu prósent. Þannig að það er alveg mjög langt í land, en þetta er klárlega eitthvað sem Seðlabankinn er mjög ánægður með.“

Þrátt fyrir það ætti fólk ekki að búast við vaxtalækkunum strax.

„Við gerum ráð fyrir að peningastefnunefndin muni hækka vexti eilítið í ágúst og láta svo mögulega staðar numið,“ segir Bergþóra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×