Körfubolti

Pétur tekur son sinn með sér til Kefla­víkur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigurður Pétursson er genginn til liðs við Keflavík.
Sigurður Pétursson er genginn til liðs við Keflavík. Vísir/Bára Dröfn

Sigurður Pétursson er genginn til liðs við Keflavík í Subway deild karla í körfuknattleik. Hjá Keflavík hittir Sigurður fyrir föður sinn Pétur sem tók nýverið við þjálfun Keflavíkurliðsins.

Sigurður Pétursson hefur spilað stórt hlutverk í liði Breiðabliks síðustu tímabilin en hann þykir efnilegur leikmaður. Hann skilaði níu stigum og tæpum fimm fráköstum í leikjum Breiðabliks á síðasta tímabili en hann er aðeins 21 árs gamall.

Í færslu Keflvíkinga á Facebook segir að Sigurður skrifi undir samning við félagið til næstu tveggja ára. Faðir Sigurðar, Pétur Ingvarsson, tók við þjálfun Keflavíkurliðsins nú í sumar en hann var einnig þjálfari Sigurðar hjá Breiðabliki síðustu árin.

Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, er ánægður með að hafa nælt í Sigurð.

„Það er ekkert launungamál að við höfum verið á höttunum eftir íslenskum gæða leikmönnum og Sigurður fellur klárlega í þann hóp. Hann átti flott tímabil í fyrra og hefur verið að bæta sig ár frá ári enda enn ungur að árum,“ sagði Magnús Sverrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×