Viðskipti erlent

Fá grænt ljós á stærsta samruna leikjaiðnaðarins

Samúel Karl Ólason skrifar
Activision Blizzard á nokkrar af vinsælustu leikjaseríum heims.
Activision Blizzard á nokkrar af vinsælustu leikjaseríum heims. AP/Richard Drew

Microsoft fékk í gær grænt ljós á að ganga frá 69 milljarða dala kaupum fyrirtækisins á leikjarisanum Activision Blizzard. Samruninn verður sá stærsti í sögu leikjaiðnaðarins og með kaupunum mun Microsoft koma höndum yfir vinsæla tölvuleiki eins og Call of Duty seríuna, Diablo, Overwatch, World of Warcraft og Candy Crush.

Microsoft hefur á undanförnum árum keypt fjölmörg leikjafyrirtæki en ekkert af sambærilegri stærðargráðu. 69 milljarðar dala samsvarar rúmum 9,2 billjónum króna, lauslega reiknað.

Dómarinn Jacqueline Scott Corley sagði í úrskurði sínum að Samkeppniseftirlit Bandaríkjanna (FTC) hefði ekki sýnt fram á að sameining fyrirtækjanna myndi koma niður á samkeppni á sviði leikjatölva eða skýjalausna fyrir tölvuleikjaspilun. Þvert á móti virtist sem samruninn myndi auka aðgengi notenda að leikjum Activision.

Samkeppniseftirlitið getur áfrýjað úrskurðinum en í grein Wall Street Journal segir að slíka sé óalgengt. Ákvörðun um áfrýjun hefur ekki verið opinberuð enn og stendur til að gera það á næstu dögum.

Forsvarsmenn FTC höfðu sagt að markaðsstaða Microsoft varðandi leikjatölvuna Xbox yrði of sterk og sömuleiðis varðandi sífellt stækkandi leikjaáskriftar fyrirtækisins sem kallast Xbox Game Pass.

FTC sagði Activision eitt tiltölulega fárra fyrirtækja sem framleiði hágæða tölvuleiki fyrir alls konar leikjatölvur og snjalltæki. Milljónir manna um heim allan spili leiki fyrirtækisins á margvíslegum tölvum og tækjum og að það gæti breyst með kaupum Microsoft á fyrirtækinu.

Íslendingar fengu nýverið aðgang að Game Pass og fjölmörgum tölvuleikjum í gegnum þá áskriftarleið.

Sjá einnig: Xbox Game Pass kemur til Íslands

Forsvarsmenn Microsoft hafa varið einu og hálfu ári í að fá sameininguna samþykkta hjá yfirvöldum víða um heim.

Yfirvöld í Bretlandi eru þau einu sem hafa ekki samþykkt samrunann enn. Forsvarsmenn samkeppniseftirlitsins þar sögðust þó í gær tilbúnir til að taka nýjar tillögur frá Microsoft, varðandi áhyggjur eftirlitsins til skoðunar. Óljóst er hvort það komi í veg fyrir samrunann.

Brad Smith, einn af yfirmönnum Microsoft, sagði í gær að fyrirtækið hefði komist að samkomulagi við samkeppniseftirlitið í Bretlandi um að stöðva öll málaferli á meðan forsvarsmenn fyrirtækisins vinna að nýjum tillögum við athugasemdum eftirlitsins.

Hafa keypt fjölmörg fyrirtæki

Microsoft hefur á undanförnum árum keypt fjölmarga leikjaframleiðendur. Meðal þeirra eru fyrirtækið Bungie, sem var hvað þekktastir fyrir Halo-leikina. Fyrirtækið Rare sem hefur gert leiki eins og Sea of Thieves og Perferct Dark.

Einnig hefur Microsoft keypt Mojang, sem gerði Minecraft leikinn gífurlega vinsæla. Ninja Playground Games, sem framleiða Forza-bílaleikina og eru að gera nýjan Fable-leik er einnig meðal þeirra framleiðenda sem Microsoft hefur keypt.

Ninja Theory, sem gerði Senua's Saga, Heavenly Sword og Devil May Cry, er eitt til viðbótar. Við þau bætast svo InXile Entertainment, sem gerði Wasteland leikina, og Obsididan Entertainment sem er hvað þekktast fyrir Fallout: New Vegas, Star Wars Knights of the Old Republic 2, Pillars of Eternity og The Outer Worlds.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×