Viðskipti innlent

Jón Guðni ráðinn banka­stjóri af stjórn Ís­lands­banka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jón Guðni hefur þegar tekið við störfum.
Jón Guðni hefur þegar tekið við störfum.

Stjórn Íslandsbanka hefur komist að samkomulagi við Birnu Einarsdóttur um starfslok hennar hjá bankanum og ráðið Jón Guðna Ómarsson í starf bankastjóra. Jón Guðni hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármála bankans og mun sinna því áfram þar til ráðið hefur verið í þá stöðu.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Íslandsbanka. Er hún sögð gerð af Jóni Guðna, sem er titlaður bankastjóri og virðist því þegar tekinn við af Birnu.

Jón Guðni var ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs árið 2011, til að bera ábyrgð á fjármálastjórnun, samstæðuuppgjöri, fjárstýringu, stefnumótandi verkefnum og samskiptum við erlendar og innlendar lánastofnanir, lánshæfismatsfyrirtæki og fjárfesta.

Hann er verkfræðingur að mennt, með meistaragráðu í fjármálaverkfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum. Þá er hann einnig með CFA próf, sem er alþjóðleg prófgráða í fjármálum. Að auki lærði Jón Guðni kínversku í eitt ár við háskóla í Peking í Kína. 

Jón Guðni hafði þegar starfað hjá Íslandsbanka og fyrirrennurum í níu ár þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

„Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Birnu Einarsdóttur fyrir mörg farsæl ár í starfi hjá bankanum. Birna hefur byggt upp sterkan banka og öfluga liðsheild sem við munum áfram búa að. Hún hefur að sönnu verið hreyfiafl og haldið gildum um jafnrétti, fjölbreytileika og sjálfbærni á lofti innan sem utan fyrirtækisins. Við óskum Birnu velfarnaðar í framtíðinni,“ er haft eftir Finni Árnasyni, stjórnarformanni Íslandsbanka.

„Stjórn bankans þekkir vel til starfa Jóns Guðna sem hefur yfirgripsmikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði og mun leiða bankann á þeirri vegferð sem framundan er.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×