Viðskipti innlent

Húrra lokað: „Reykja­vík er að verða ömur­lega leiðin­leg borg“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Skemmtistaðurinn Húrra hefur verið einn af tónleikastöðum Reykjavíkur um nokkurra ára skeið, með tveggja ára hléi þó árin 2019 til 2021. 
Skemmtistaðurinn Húrra hefur verið einn af tónleikastöðum Reykjavíkur um nokkurra ára skeið, með tveggja ára hléi þó árin 2019 til 2021.  Vísir/Vilhelm

Eig­andi tón­leika­staðarins Húrra við Tryggva­götu í Reykja­vík hefur lokað staðnum, að minnsta kosti tíma­bundið. Hann segir leiguna of háa en við­ræður standi yfir við eig­endur hússins. Hann segist óttast að Reykja­vík stefni hrað­byri að því að verða eins­leitari borg þar sem tón­leika­staðir fái ekki þrifist.

„Staðurinn er lokaður eins og staðan er núna. Það eru búnar að vera þreifingar við hús­eig­endur en stað­reyndin er sú að leigan er of há og það er ekki hægt að láta þetta ganga upp eins og þetta er núna,“ segir Þor­steinn Stephen­sen, eig­andi tón­leika­staðarins Húrra, í sam­tali við Vísi.

Auð­veldara að sjá ís­lenska tón­listar­menn í Ber­lín

Fjöl­lista­dísin og fjöl­miðla­konan Margrét Erla Maack vekur at­hygli á lokun staðarins í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Hún segir að á sama tíma og Egill Ólafs­son frændi sinn væri út­nefndur borgar­listar­maður Reykja­víkur fækki tón­listar­stöðum stöðugt.

„Tón­listin og menningin er það sem gerir okkur að borg fyrir fólk. Tón­listin laðar ferða­menn til borgarinnar. Núna er staðan sú að það eru meiri líkur á að sjá ís­lenska tón­listar­menn koma fram í Ber­lín en í Reykja­vík.“

Margrét segist hafa verið svo heppin að hafa slitið djamms­skónum í Tón­leika-Reykja­vík þegar tón­leika­staðir líkt og Grand­rokk, Faktorý, Gaukurinn, Gamli Gaukurinn og Sódóma hafi verið heimili slíkra við­burða í borginni.

„Lifandi tón­listar­flutningur er í dag orðin helsta tekju­lind tón­listar­manna, þar sem plötu­sala hefur dregist saman. Og þetta er meeeeega­hark þar sem svo fáir tón­leika­staðir eru í borginni,“ skrifar Margrét sem bætir því við að hún öfundi Akur­eyringa af því að eiga tón­leika­staðinn Græna hattinn.

Kabarettlistakonan Margrét Erla Maack grætur fækkun tónleikastaða í Reykjavík. MYND/Inga Sör

Vill halda Húrra gangandi

Eig­andi hús­næðisins að Tryggva­götu er fast­eigna­fé­lagið Eik. Í svörum til Vísis vegna málsins segja for­svars­menn fé­lagsins að þeir séu bundnir trúnaðar­skyldu gagn­vart leigu­aðilum. Fé­lagið tjái sig ekki um það sem fari sín og leig­endum á milli, hvort sem varði leigu­samning eða annan á­greining.

Þor­steinn segir þó að Eik hafi tekið vel í sjónar­mið sín. Við­ræðum væri þó ekki lokið og staðurinn því enn lokaður og ó­víst væri hvort hann verði opnaður aftur jafnvel þótt samningar næðust.

„Ég hef á­huga á að halda honum gangandi en hann þarf að standa undir sér og gerir það ekki eins og staðan er núna,“ segir Þor­steinn en staðurinn var opnaður aftur í nú­verandi mynd fyrir tveimur árum síðan árið 2021.

Skemmtistaðurinn opnaði að nýju árið 2021 eftir að hafa lokað árið 2019.Vísir

„Við höfum reynt að binda þannig um hnútana að þetta geti staðið undir sér en á­standið að undan­förnu hefur gert þetta gríðar­lega erfitt. Það hafa verið rosa­lega miklar hækkanir á öllum sviðum, hvort sem það eru vöru­inn­kaup, laun eða leigan, þannig að þetta hefur bara verið mjög erfitt. Við vonum hins vegar það besta, það er ekki öll von úti enn.“

Deilir á­hyggjum af tón­list í Reykja­vík

Þor­steinn tekur undir með Margréti Erlu. Hann segist hafa veru­legar á­hyggjur af fækkun tón­leika­staða í borginni.

„Reykja­vík er að verða alveg ömur­lega leiðin­leg borg. Það eina sem gengur upp eru túr­ista­staðir og það hækkar leiguna hjá öllum og mið­bæjar­flóran er að vera mjög eiins­leit þó að stöðum hafi fjölgað.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×