Viðskipti innlent

Best að líta á sparnaðar­reikninga eins og bland í poka

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Már segir að líkt og ef um verðbréfaviðskipti væri að ræða sé best að dreifa sparnaði sínum á sem fjölbreyttustu reikninga.
Már segir að líkt og ef um verðbréfaviðskipti væri að ræða sé best að dreifa sparnaði sínum á sem fjölbreyttustu reikninga. Vísir/Egill

Lektor í við­skipta­fræði við Há­skóla Ís­lands segir erfitt að svara því hvort best sé að velja sér ó­verð­tryggða eða verð­tryggða sparnaðar­reikninga á þeim verð­bólgu­tímum sem nú eru uppi. Hann segir best að vera með eins fjöl­breytta sparnaðar­reikninga og hægt er, líkt og um bland í poka væri að ræða.

Ís­lenskir bankar bjóða nú upp á tölu­verðan fjölda af sparnaðar­reikningum og getur verið erfitt að festa reiður á það hvaða reikning sé best að stofna til á hverjum tíma, ekki síst á þeim verð­bólgu­tímum sem nú eru uppi. Hægt er að velja á milli ó­verð­tryggðra og verð­tryggðra reikninga og ó­bundinna og bundinna á misháum vöxtum.

„Þetta er hin hliðin á spurningunni um það hvort betra sé að taka verð­tryggt eða ó­verð­tryggt lán,“ segir Már Wolf­gang Mixa í sam­tali við Vísi spurður að því hvaða sparnaðar­reikningur sé bestur í núverandi aðstæðum.

Hann segir að árin fram að 2018 hafi verið hag­stæðara að taka verð­tryggð lán hafi verið litið til kostnað lána en ekki hve hratt þau eru greidd niður. Varla hafi farið fram­hjá neinum að mun hag­stæðara hafi verið að vera með ó­verð­tryggð lán síðustu ár sem hafi verið líkt og himna­sending fyrir þá sem hafi verið með þau á föstum vöxtum.

„Al­mennt hef ég mælt með því við fólk þegar það er að taka hús­næðis­lán að þessu sé skipt um það bil til helminga, það sé fyrsta við­miðið og svo eru alls­kyns að­stæður sem geta komið upp, sumir vilja greiða lánið hægt og bítandi niður og er sama hvort þeir skuldi svipað í húsinu eftir fimm ár á meðan aðrir vilja greiða þau niður.“

Spurður hvers­konar sparnaðar­reikning fólk ætti þá að velja sér á þessum síðustu og verstu tímum segir Már:

„Fólk ætti al­mennt að vera með bland í poka. Hafa eitt­hvað af þessu verð­tryggt, eitt­hvað ó­verð­tryggt og síðan bundna reikninga sem miðast við að­stæður hverju sinni. Þú getur fest reikninga í eitt til tvö ár og þá er peningurinn bundinn, sem er auð­vitað ó­kostur en á móti kemur að þú ert að fá að­eins hærri vexti,“ segir Már

„Ef vaxta­stig hækkar þá er auð­vitað súrt að vera með þetta á bundnum reikningi með fasta prósentu en ef vaxta­stig lækkar þá ferðu í hina áttina og þetta fer í þver­öfuga átt.“

Best að dreifa sparnaðinum

Kjarni málsins sé að hafa eins marga fjöl­breytta sparnaðar­reikninga og kostur sé á. Spurður hvort að best sé þá að dreifa til­tekinni upp­hæð um hver mánaðar­mót segir Már:

„Það er best að dreifa upp­hæðinni sem þú ætlar að spara miðað við væntar þarfir. Ef þú til dæmis ert ekki að nota peninginn í segjum 12-24 mánuði, þá að öllu jöfnu er rétt að setja að minnsta kosti ein­hvern hluta á bundinn reikning.“

Og ef að verð­bólgan myndi skyndi­lega rjúka niður?

„Þá er gott að hafa sparnaðinn á bundnum reikningi. Ef hún rýkur upp, þá er það bara eins og það er,“ segir Már hlæjandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×