Viðskipti innlent

Brim semur um 33 milljarða lán

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brims. Vísir/Vilhelm

Útgerðarfélagið Brim hf. hefur undirritað samning um 33 milljarða króna sambankalán til að endurfjármagna eldra lán.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að lánveitendur séu þrír alþjóðabankar; alþjóðlegi matvæla- og landbúnaðarbankinn Rabobank, norræni Nordea bankinn og norski DNB bankinn og að lánið er til fimm ára með 25 ára afborgunarferli. 

„Í lánaskilmálum eru hvatar til aukinnar sjálfbærni þar sem skilgreindir eru árangursvísar á sviði umhverfis- og samfélagsmála og í samræmi við stefnu og markmið Brims, en félagið hefur birt slíkar upplýsingar samkvæmt GRI staðlinum frá 2017. Árangursvísarnir taka m.a. til losunar gróðurhúsalofttegunda tengt veiðum og er Brim frumkvöðull í slíkri upplýsingagjöf á heimsvísu. Rabobanki er umsjónaraðili sjálfbærniþátta lánsins. Lánakjörin eru góð og staðfesta fjárhagslegan styrk Brims, ábyrgar fjárfestingar undanfarin ár og góða rekstrarsögu,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Ingu Jónu Friðgeirsdóttur, fjármálastjóra Brims hf, að þau hjá Brimi séu ánægð með nýja sambankalánið sem sé að þeirra mati á góðum kjörum. „Lánveitendurnir eru viðurkenndar alþjóðlegar fjármálastofnanir með mikla reynslu af viðskiptum við evrópska matvælaframleiðendur. Lánið staðfestir tiltrú alþjóðafjármálamarkaðarins á fjárhagsstyrk Brims, sjálfbærum veiðum og vinnslu okkar á hágæða sjávarafurðum. Við erum sérstaklega ánægð með hvatana til aukinnar sjálfbærni sem felast í lánaskilmálunum en þeir styðja við markmið okkar um aukna verðmætasköpun, lækkun kolefnisspors og aukið öryggi í framleiðslu og dreifingu afurða félagsins um allan heim.“

Endurskipuleggja fjárhaginn

Sömuleiðis er í tilkynningunni haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims, að hann sé mjög sáttur því lánaskilmálar undirstriki traustan efnahag Brims og góðan rekstur. „Þessi 33 milljarða fjármögnun gerir okkur kleift að endurskipuleggja fjárhaginn og undirbúa tæknivædda framtíð. Við getum nýtt aukinn fjárhagsstyrk til að hraða okkar stefnumálum sem eru að bæta nýtingu veiðiheimilda, auka sjálfbærni, efla markaðs- og sölustarf og auka verðmætasköpun og arðsemi.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×