Viðskipti innlent

Marta Guð­rún nýr fram­kvæmda­stjóri hjá ORF Líf­tækni

Atli Ísleifsson skrifar
Marta Guðrún Blöndal.
Marta Guðrún Blöndal. ORF Líftækni

Marta Guðrún Blöndal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar hjá ORF Líftækni og mun hún koma inn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Í tilkynningu segir að um nýja stöðu sé að ræða þar sem Marta muni leiða þróun framtíðarsóknarfæra fyrirtæksins auk ábyrgðar á lagalegum viðfangsefnum og gæðamálum.

„Marta hefur starfað sem yfirlögfræðingur ORF Líftækni frá árinu 2018. Hún var áður aðstoðarframkvæmdastjóri og lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands. Samhliða störfum fyrir ráðið hélt Marta utan um starfsemi Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands sem framkvæmdastjóri dómsins. 

Marta hefur yfirgripsmikla þekkingu á íslensku atvinnulífi, lagaumhverfi fyrirtækja hér landi og stjórnarháttum. Hún stýrði meðal annars útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja og sat í samráðshópi útgáfuaðila stjórnarháttaleiðbeininga í Evrópu og á Norðurlöndunum. 

Marta er einnig reyndur stjórnarmaður og situr nú í stjórnum Vátryggingafélags Íslands, Olíudreifingar og Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands.

Marta lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2016,“ segir í tilkynningunni. 

ORF Líftækni er nýsköpunarfyrirtæki á sviði plöntulíftækni, sem byggir á 15 ára reynslu af þróun og framleiðslu vaxtarþátta í erfðabreyttum byggplöntum. ORF Líftækni selur nú vaxtarþætti til notkunar í snyrtivörum, vísindarannsóknum og í ört vaxandi vistkjötsframleiðslu. Starfsemi ORF Líftækni var árið 2022 skipt upp og er húðvöruhluti félagsins rekinn í aðskildu félagi, Bioeffect. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×