Neytendur

Farþegar reiðir leiguflugvélum Icelandair

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, svaraði fyrir félagið í Bítinu í morgun.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, svaraði fyrir félagið í Bítinu í morgun. Vísir/Vilhelm

Upp á síðkastið hafa nokkrar flugferðir Icelandair verið með óhefðbundnu sniði en félagið leigir nú flota frá búlgarska flugfélaginu Fly2Sky auk þess sem Dash8 Q400 vél úr innanlandsflugi var bætt við flotann. Flugvélarnar sem um ræðir eru að sögn ósáttra farþega minni, háværari og ekki er boðið upp á skemmtikerfi á sætisbökum, sem er eitt aðaleinkenni Icelandair flugvéla.

Á vefsíðunni Aeroroutes kemur fram að dagana 2. - 18. júní leigi Icelandair Airbus A321 flugvélar frá flugfélaginu Fly2Sky. Flugvélunum verði flogið til Billund, Kaupmannahafnar, Lundúna, Oslóar og Stokkhólms. 

Haukur Viðar Einarsson, sem flaug með torfæruliði sínu til Oslóar í keppnisferð, segir í Facebook færslu frá vonbrigðunum sem urðu þegar Dash8 Q400 flugvél, sem vanalega er notuð í innanlandsflugi, sótti liðið upp á Oslóarflugvöll til heimferðar.

Hann segir flugið hafa tekið fjóra tíma, sem er rúmum klukkutíma lengur en hefðbundið flug milli Keflavíkur og Oslóar.

Þá segir hann flugvélina hafa verið þrönga, háværa og að skemmtikerfið sem félagið stæri sig iðulega af hafi vantað.

Borið hefur á gagnrýni úr fleiri áttum. Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari sagði á Twitter í gærkvöldi að flug í síðustu viku með Icelandair hefði verið hans versta nokkurn tímann. 

„Ömurleg þjónusta í vélinni og ekki í takt við það sem ég borgaði fyrir,“ sagði Sævar Helgi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, svaraði fyrir ábendingarnar um gæðamun Fly2Sky flugvélanna og Icelandair flugvélanna í Bítinu í morgun. Hann segir truflanir í flotanum stafa af uppbyggingu hjá félaginu og árekstri sem varð á flugvellinum í maí þegar flugvallartæki rakst utan í flugvél Icelandair.

Hann segir alla farþega sem fljúga fá tíu þúsund vildarpunkta í bætur auk veitinga um borð í flugvélinni. Farþegi sem Vísir ræddi við kannaðist við veitingarnar en um hafi verið að ræða eplasafa og croissant í hans flugi til Íslands.

Vísir fjallaði um það í lok apríl þegar félagið bætti einni Dash8 Q400 flugvél við sumarflotann. Þá var áætluð flug með þeim flugvélum til Bergen, Dyflinar og Osló.


Tengdar fréttir

Fluttu stigabíl frá Keflavík fyrir Airbus-þotu í Reykjavík

Sérstakur stigabíll fyrir stórar flugvélar var fluttur til Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi. Flytja þurfti hann á trukki þar sem hann er ekki á númerum. Ástæðan fyrir þessum óvenjulega flutningi er sú að á Reykjavíkurflugvelli er aðeins til einn nægilega stór stigi og talin var þörf á tveimur stórum stigum vegna flugsýningarinnar sem þar fer fram í dag, laugardag.

Icelandair flýgur til Fær­eyja

Icelandair tilkynnti Færeyjar sem nýjan áfangastað í dag. Flogið verður fimm til sex sinnum í viku með morgunflugi út október á næsta ári.

Bætir við einni Dash 8-400 og notar í Evrópuflugi á ný

Icelandair bætir við einni 76 sæta Dash 8 Q400-flugvél í flotann fyrir sumarið. Jafnframt hyggst félagið á ný nota þessa flugvélartegund á nokkrum Evrópuleiðum fyrri hluta sumars en þó einungis tímabundið.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×