Neytendur

Vís­bendingar um verð­sam­ráð verslana eftir út­gáfu Verð­gáttar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Í Verðgáttinni er hægt að skoða verð 74 vara hjá Krónunni, Nettó og Bónus.
Í Verðgáttinni er hægt að skoða verð 74 vara hjá Krónunni, Nettó og Bónus. Vísir/Vilhelm

Vísbendingar eru um að matvöruverslanir hafi samræmt vöruverð sitt örfáum dögum áður en ný verðgátt var opnuð almenningi. Í sumum tilfellum var verð hækkað þar sem varan reyndist dýrari annars staðar. 

Verðgátt Rannsóknarseturs verslunarinnar og menningar- og viðskiptaráðuneytisins var sett í loftið í gær. Þar geta neytendur borið saman verð sjötíu og fjögurra neysluvara hjá þremur verslunum. Bónus, Krónunnar og Nettó.

Við fyrstu sýn virðist Verðgátt þessi ekkert sérstaklega nytsamleg þar sem oftar en ekki munar einungis einni krónu á verði milli verslana. Þá er einungis 182 krónum á dýrustu og ódýrustu körfunni.

Samkvæmt könnuninni mun ódýrasta matarkarfan vera í Krónunni og séu allar vörur Verðgáttarinnar settar í körfuna kosta þær 42.127 krónur þar. Í Bónus er hún 91 krónu dýrari og í Nettó 182 krónum dýrari.

Litlu munar á milli verslana í Verðgáttinni.Vísir/Hjalti

Verðlagseftirlit ASÍ skoðaði gáttina og verðþróun síðustu daga á þeim vörum sem þar má sjá. Verkefnastjóri eftirlitsins segir gögnin sýna að verslanirnar hafi aðlagað verð sín að hvorri annarri dagana áður en gáttin fór í loftið.

„Rétt áður en að hún er opnuð fyrir almenningi verður mikil verðþjöppun. Sumar vörur hækkaðar í verði og aðrar lækkaðar þannig að verðbilið heilt yfir minnkar mjög mikið. Þetta er annars vegar áhyggjuefni vegna þess að þetta lætur það líta út fyrir að vöruverð í verslunum sé mjög svipað þegar okkar verðkannanir sýna að það er talsvert meiri almennur verðmunur,“ segir Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ.

Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ.Vísir/Arnar

Mest áberandi dæmið um verðþjöppunina má sjá þegar verð jarðarberja er skoðað. Verðið helst nokkuð stabílt í nokkra daga fyrir birtingu Verðgáttarinnar. Svo sama dag og hún fer í loftið lækkar Krónan sitt verð um rúm 34 prósent. Á sama tíma hækkar Nettó sitt verð um fimmtán prósent. Eftir breytinguna eru þá allar verslanir með nokkuð svipað verð.

Hér má sjá hvernig verð jarðarberja breyttist sama dag og Verðgáttin fór í loftið. Vísir/Hjalti

En þrátt fyrir svipað verð er ekki alltaf víst að vörurnar séu til í öllum verslum.

„Ég labbaði hér inn í dag og einhverjar vörur sem voru birtar í gáttinni voru ekki til. En það voru aðrar tegundir af vörunni sem voru þrisvar sinnum dýrari. Þannig maður þarf að hafa auga með því líka. Þetta er áskorun til neytenda þegar þeir fara út í búð að gæta að verðinu á öllum vörum sem þeir kaupa,“ segir Benjamín. 

Rit úr greiningu ASÍ á gögnum Verðgáttarinnar. Sjá má verð nokkurs magns vara frá Nettó færast talsvert nær verði Bónus nokkrum dögum áður en Verðgáttin fór í loftið.

Tengdar fréttir

Neytendur geta borið saman matvöruverð þriggja verslunarrisa

Vefurinn Verðgáttin er nú komin í loftið en hún gerir neytendum kleift að fylgjast með þróun verðlags helstu neysluvara í stærstu matvöruverslunum landsins; Bónus, Krónunni og Nettó. Í Verðgáttinni munu neytendur sjá vöruverð gærdagsins og verðsögu vörunnar.

Mat­vöru­gátt þriggja verslana opnar brátt

Neytendur munu geta borið saman verð á matvælum í sérstakri Matvörugátt sem opnuð verður innan fárra daga. Þrjár verslanir eru þátttakendur í verkefninu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×