Viðskipti innlent

Mat­vöru­gátt þriggja verslana opnar brátt

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Verkefnið hefur tafist vegna tæknilegra mála.
Verkefnið hefur tafist vegna tæknilegra mála.

Neytendur munu geta borið saman verð á matvælum í sérstakri Matvörugátt sem opnuð verður innan fárra daga. Þrjár verslanir eru þátttakendur í verkefninu.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, undirrituðu samning um Matvörugáttina þann 10. febrúar síðastliðinn að Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, viðstaddri. Rannsóknarsetrið heldur utan um gáttina.

Matvörugáttin er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem stuðningur við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í desember. Það er til að auka aðhald að neytendamarkaði og að almenningur geti fylgst með verði á helstu neysluvörum sem seldar eru í matvöruverslunum. Á gáttin að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.

Flókið verkefni

Upphaflega átti Matvörugáttin að opna á „næstu vikum“ eftir undirritun en opnunin hefur tafist. Sigrún Ösp segir að verkefnið hafi reynst tæknilega flóknara en búist var við, en stjórnvöld lögðu tíu milljónir króna í það.

„Það eru margir aðilar sem koma að gáttinni og það tók lengri tíma að smíða hana en gert var ráð fyrir,“ segir Sigrún Ösp. Verkefnið sé vandasamt en sem betur fer líti út fyrir að allt muni smella saman á næstu dögum.

Sigrún Ösp segir að þrjár stórar matvöruverslanir verði í gáttinni. Það eru Bónus, Krónan og Nettó. Í gáttinni verður hægt að sjá verðsamanburð á milli verslananna og neytendur munu geta reiknað verðið á sinni innkaupakörfu í henni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×