Viðskipti innlent

Far­þegum fjölgaði um sex­tán prósent milli ára

Árni Sæberg skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair group.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair group. Vísir/Vilhelm

Heildarfjöldi farþega Icelandair var um 366 þúsund í maí, sextán prósent fleiri en í maí í fyrra þegar farþegar voru 316 þúsund. Sætaframboð í maí jókst um ellefu prósent miðað við fyrra ár.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair um farþegafjölda í maí.

Þar segir að farþegar í millilandaflugi hafi verið 343 þúsund, átján prósent fleiri en í maí 2022, þegar 291 þúsund flugu með félaginu. Þar af hafi 41 prósent verið á leið til Íslands, sextán prósent frá Íslandi og 42 prósent verið tengifarþegar. 

Stundvísi í millilandaflugi hafi verið 75 prósent, sem sé nokkuð undir væntingum og skýrist meðal annars af óvenjuskörpum lægðum í maí. Sætanýting hafi verið 80,7 prósent og hún hafi aukist um 6,6 prósentustig á milli ára.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi hafi veruð um 23 þúsund, samanborið við 26 þúsund í maí í fyrra. Sætanýting hafi verið 76,6 prósent í mánuðinum og stundvísi verið 85 prósent, töluvert betri en í sama mánuði í fyrra. Framboð hafi verið minna en í maí í fyrra og skýrist það meðal annars af því að aflýsa þurfti nokkrum fjölda flugferða vegna veðurs.

Fraktflutningar hafi aukist um 34 prósent á milli ára, aðallega vegna aukningar í fraktflugi yfir Atlantshafið með tilkomu tveggja Boeing 767 breiðþota í fraktflota félagsins. Seldir blokktímar í leiguflugi hafi verið 26 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Hröð uppbygging afrakstur þrotlausrar vinnu

„Við höldum áfram að sjá góðan árangur með mikilli fjölgun farþega á milli ára og sterkri tekjumyndun. Sumarið lítur vel út og á sama tíma og við aukum umsvifin með stærstu áætlun félagsins hingað til er sætanýting með besta móti. Svo hröð uppbygging starfseminnar er afrakstur þrotlausrar vinnu starfsfólks félagsins í kjölfar heimsfaraldursins. Í heild fljúgum við til 54 áfangastaða í ár og við höfum þegar hafið flug til Detroit og Prag sem eru nýir sumaráfangastaðir í flugáætlun okkar,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair group, í fréttatilkynningu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.